151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[13:41]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Já, við skulum bara kalla þetta kosningaáætlun. Ég held að ég hafi reyndar ekki gert það, ég talaði hins vegar um það að fjárlögin væru þannig að það væri ljóst að kosningar væru á næsta leiti. Ekki er verið taka á neinum málum í fjárlögum eins og þau eru lögð fram núna.

Hæstv. forsætisráðherra nefnir aðhaldið og niðurskurðinn sem þurfti að fara í 2008–2009. Já, það þurfti að bregðast svolítið við þá. Síðan hafa ráðherrarnir í ríkisstjórninni keppst við að tala um að nú stöndum við frammi fyrir dýpstu kreppu Íslandssögunnar, að við höfum aldrei séð annað eins. Hvað á að gera? Ætla menn virkilega að halda því fram hér að með sömu aðferðum og þessi ríkisstjórn er að boða núna — að ausa bara fjármunum úr ríkissjóði í stað þess að reyna að efla atvinnulífið og efnahaginn — getum við vaxið út úr kreppunni og þeim aðstæðum sem núna eru? Það er ekki þannig, hæstv. forsætisráðherra. Við hljótum að þurfa að horfa til þess að lækka skatta, gera fyrirtækjum auðvelt að vaxa og afnema tryggingagjaldið þannig að fyrirtækin geti fjölgað starfsmönnum og bætt við sig. Það er ekki á dagskrá þessarar ríkisstjórnar. Nei, það eru allt aðrir hlutir og þess vegna hljótum við að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvernig hún sér fyrir sér að mæta þeim áskorunum sem eru fram undan í ríkisrekstrinum.

Það er ljóst nú þegar að þær áætlanir sem við höfum um hagvöxt eru á mjög veikum grunni byggðar. Menn hafa jafnvel talað um að svartari tímar séu fram undan varðandi atvinnuleysi og annað slíkt. Það er ekki til þess að auka bjartsýni okkar um að þessi ríkisstjórn geti gert nokkurn skapaðan hlut til að lyfta landinu og koma því áfram. Þess vegna hljótum við að spyrja ráðherrann hvernig hún sér fyrir sér að beita ríkisbatteríinu til að koma efnahagslífinu af stað. Það verður ekki gert með því að setja fleiri milljarða í einhver verkefni sem eru ekki til þess að fjölga starfsmönnum hjá einkafyrirtækjum. Það er ekki gert með því að þenja út ríkissjóð eins og hefur gerst.

Hæstv. ráðherra kom sér undan því að svara spurningunni um það hvernig stendur á allri þessari stækkun í forsætisráðuneytinu undir hennar stjórn og stórauknum útgjöldum. Öflugt atvinnulíf verður ekki til með því að fjölga aðstoðarmönnum forsætisráðherra. Það gerist ekki þannig. Báknið hefur blásið út undir forystu (Forseti hringir.) forsætisráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, og á því þarf að taka.