151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[11:30]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Það er auðvitað ljóst að við erum alltaf að reyna að nýta betur fjármuni sem búið er að veita og skoða hvað við getum gert betur í þessum málum, aukið gæði saksókna o.fl. og eflt saksókn í meðferð á þessum málum. Námskeið sem verður haldið sem hv. þingmaður vísar í — það er auðvitað alltaf verið að reyna að efla gæðin með slíkum námskeiðum. Mér er alltaf minnisstætt þegar dr. Margrét, félagsfræðingur og doktor í afbrotafræði og lektor í lögreglufræðum, kom sérstaklega fyrir lögregluráð nú í vetur til að ræða kynþáttahyggju og fordóma og slíkt við lögreglustjórana til þess einmitt að taka það síðan lengra hvernig við gætum ráðist gegn kynþáttafordómum í löggæslu. Síðan er það auðvitað aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins sem er svo stór hluti sem við höfum ráðist í og fullfjármagnað og svo rafræna réttarvörslugáttin sem mun flýta og stytta málsmeðferð allra mála. Við sjáum hluta af henni fara í gang núna strax á þessu ári. Þá verða gögn aðgengileg þvert á stofnanir, við fáum betri yfirsýn yfir kerfið, styttum alla ferla, minnkum pappírsumstang og styttum þar af leiðandi málsmeðferðartíma sem er mjög mikilvægt í kynferðisbrotamálum, eins og öðrum. Í það fóru 400 milljónir árlega, í aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota. Það hefur verið fjölgað um lögreglumann hverju einasta embætti til að efla rannsóknardeildina, sem auðvitað eflir líka málsmeðferð og styttir hana og eykur gæði þeirrar þjónustu hjá lögreglunni sem er einmitt, vegna þeirrar fyrirspurnar sem kom áðan frá hv. þm. Þorstein Sæmundssyni, svo mikilvæg þjónusta við borgarana sem leita til lögreglunnar vegna kynferðisbrota.