151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[12:42]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir umræðuna. Það sem sett er fram í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og fjármálaáætlunin og fjárlögin styðja við er að við náum þeim markmiðum sem við höfum hingað til skuldbundið okkur alþjóðlega til að ná, þ.e. í samfloti með Evrópusambandinu, að ná 40% samdrætti árið 2030 miðað við árið 1990. Líkt og ég sagði áðan er ég sannfærður um að þessi markmið eiga eftir að fara upp nú þegar á þessu ári eða í upphafi næsta árs, bæði í Evrópu og á Íslandi.

Hvaða árangri náum við með því fjármagni sem núna er sett inn? Við stefnum að því að með þeim aðgerðum sem settar hafa verið fram munum við ná hið minnsta 35% samdrætti en sennilega 40–46% samdrætti miðað við þá aðgerðaáætlun sem er í gangi núna. Það er það sem við teljum okkur geta náð árið 2030.

Ég veit það vel að þetta er ekki brotið niður á hvert og eitt einasta ár. Ég vil meina að við höfum stigið gríðarlega stór skref á þessu kjörtímabili. Ef við horfum bara á aðgerðaáætlun sem kom út árið 2018 og hún borin saman við þá sem kom út árið 2020 þá eru það gjörólíkar áætlanir. Hin seinni er miklu betri og sýnir miklu betur fram á að hér er verið að ná raunverulegum árangri. Hér er spáð fyrir um að við munum ná meiru en alþjóðlegar skuldbindingar okkar gera ráð fyrir. En það er síðan verkefni að reyna að greina þetta betur þannig að við getum betur áttað okkur á fleiri tímavörðum á þessari leið til ársins 2030 og undir það tek ég með þingmanninum.