151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[12:53]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og mig langar að bæta við nokkrum spurningum, fyrst varðandi náttúrustofurnar. Ég sé að í fjárlögum næsta árs eru framlög til þeirra mun gagnsærri en á síðasta ári og ég fagna því. En mig langar að spyrja um vöktunarverkefni sérstaklega, því að á þessu kjörtímabili hefur verið aukin áhersla á ýmiss konar vöktunarverkefni í náttúrunni, bæði vegna náttúruvár vegna loftslagsbreytinga og líffræðilegs fjölbreytileika og fleira. Þess vegna langar mig að spyrja hvernig reynslan sé af þeim verkefnum sem tilteknar ríkisstofnanir hafa unnið með náttúrustofum við vöktun náttúrunnar víða um land. Þarna voru gerðir tímabundnir samningar sem, ef ég man rétt, renna út á næsta ári. Er ætlunin að halda samstarfi af því tagi áfram og jafnvel bæta í eða eru einhverjar aðrar áherslur varðandi vöktunina?

Síðan langar mig að spyrja um strandsvæðaskipulag. Er sú vinna fullfjármögnuð sem þar er í gangi? Er einhver áætlun um að fara í vinnu strandsvæðaskipulags fyrir fleiri svæði en Austfirði og Vestfirði? Og þá langar mig að spyrja um leiðbeiningar um flokkun lands í skipulagi í dreifbýli, hvort að það sé fullfjármagnað, þ.e. slík vinna í landsskipulagsstefnu. Að lokum langar mig aðeins að koma inn á áskoranir sem snúast um verndun, vöktun og uppbyggingu á gróður- og jarðvegsauðlindinni sem kemur inn á mjög marga málaflokka og við hæstv. ráðherra höfum oft rætt hér. Er í rauninni einhver sem hefur það hlutverk að flétta saman sem flest markmið til að tryggja árangur á því sviði?