151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[13:15]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Herra forseti. Í andsvari við hv. þm. Björn Leví Gunnarsson sagðist ráðherra vera sannfærður um að markmið um samdrátt í losun ættu eftir að fara upp þegar á þessu ári eða í upphafi þess næsta og nefndi þar bæði Evrópu og Ísland til leiks. Ég get fært ráðherranum þær gleðifréttir að þetta gerðist í gær. Evrópuþingið samþykkti í gær að verða að tillögu umhverfisnefndar sinnar um að ESB myndi stefna að 60% samdrætti í losun. Þannig að vagninn er farinn af stað og Ísland þarf að hafa sig við til að ná honum af því að við erum enn aðeins með 40% markmið. Eins og við vitum þá dugar það hvergi nærri til. 60% markið mun skila sér til okkar, vonandi sem fyrst, í gegnum Evrópusamstarfið. Nú þurfa stjórnvöld að fara að stíga þessi metnaðarfullu skref í takt við nágranna okkar á meginlandinu.

Mig langar að velta því upp, af því að hér hefur verið rætt um orkuskipti, að þeim hefur aðallega verið ýtt áfram með ívilnunum í þágu hreinorkufarartækja. Nú erum við með tekjubandorm í tengslum við fjárlög þar sem vörugjöld og kolefnisgjöld á bensínbíla eru bara vísitöluuppfærð. Er þetta það rétta í stöðunni? Þurfum við ekki að fara að keyra akkúrat þessi gjöld og önnur sambærileg upp, bæði til þess að gera orkuskiptin hraðari og til að gera þau ódýrari vegna þess að þær tekjur sem þannig fást af mengandi bílum geta nýst til að (Forseti hringir.) niðurgreiða þá sem menga minna? Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn miðar við að leggja þurfi á hvert tonn af koltvísýringi (Forseti hringir.) um 75 dollara til að eðlilegt sé. Kolefnisgjöldin á Íslandi eru helmingur þess.