151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[13:20]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Herra forseti. Mig langar rétt aðeins að fylgja eftir þessu með kolefnisgjöldin. Vissulega voru þau hækkuð tvívegis í litlum skrefum við upphaf þessa kjörtímabils, en á í alvöru að láta þar við sitja? Eftir þá hækkun standa kolefnisgjöldin, samkvæmt útreikningum Alþjóðabankans, í kringum 40 dali á hvert tonn af CO2. Það þyrfti að vera alla vega 75 dalir. Þetta er helmingur af því sem við þurfum að ná og ekki er stafkrókur í fjármálaáætlun til næstu fimm ára um að gera eitthvað í þessu. Það nægir ekki að hafa gert eitthvað 2018 og 2019 og láta þar við sitja í þessum bransa.

Mig langar að spyrja ráðherrann út í það sem mér finnst vera einn besti þátturinn í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sem er það fyrirheit ríkisstjórnarinnar að láta fara fram mat á loftslagsáhrifum allra stærri áætlana ríkisins. Slíkt mat hefur samt hér um bil aldrei farið fram, því var t.d. sleppt varðandi samgönguáætlun í bæði skiptin sem hún kom hingað til þingsins og það litla mat sem er hér í fjármálaáætlun stendur varla undir nafni.

Mig langar að spyrja ráðherrann, því að ég veit að hann vill að upplýsingar um þessi mál séu skýrar, þannig fáum við umræðuna áfram og þannig fáum við að sjá hvort aðgerðir séu til góðs eða ekki: Hvers vegna er þessu góða markmiði stjórnarsáttmálans aldrei framfylgt?