151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[13:45]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður segir, það þarf svolitla yfirlegu í þessum málaflokki til þess að vera vel inni í honum, en ég hef nú haft nokkra klukkutíma, við skulum ekki vorkenna mér of mikið. Heilt yfir þá er stefnan náttúrlega að veita fólki meiri þjónustu í nærsamfélaginu og þar er heilsugæslan sem fyrsti viðkomustaðurinn, sem ég nefndi áðan, mjög mikilvæg. Síðan finnst mér skipta mjög miklu máli í þessu öllu efling göngudeildarþjónustu og geðteyma í heilsugæslu. Við sjáum í fjáraukalögum þessa árs að verið er að tala um 540 millj. kr. og þær munu koma aftur á næsta ári. Ég er mjög ánægður með að sjá þessa áherslu sem er að koma inn á geðheilbrigðismálin. Það er líka verið að bæta 100 millj. kr. árlega núna út tímabilið í samræmi við geðheilbrigðisáætlun. Það virðist vera sem geðheilbrigðisteymin séu að virka vel á tímum Covid og það er náttúrlega mikilvægt líka, að við fáum að sjá hvernig þetta gengur. Varðandi hugmyndir um nýtt hús, eins og þingmaðurinn nefnir, þá er það eitthvað sem ég hef svo sem ekki velt mér mikið upp úr en ég segi alltaf að ef góðar hugmyndir koma fram þá eigum við að skoða þær. Það verður bara áhugavert að taka umræðuna um þetta. Hvað skal segja meira? Á þessu kjörtímabili hefur gríðarleg áhersla verið lögð á að efla geðheilbrigðisþáttinn í heilbrigðisþjónustunni og ég er mjög ánægður með það.