151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[14:05]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þátttökuna í þessari umræðu. Í fyrsta lagi vil ég segja að hæstv. fjármálaráðherra er ekki hæstv. heilbrigðisráðherra, eins og við vitum, en ég ætla ekki að blanda mér í það sem fram fór á sínum tíma. Ég held að við séum þarna að horfa á mikilvægt atriði og við erum sammála um það. Þetta er í raun það sem ég var að reyna að segja hér áðan. Þetta er í vinnslu í ráðuneytinu, verið er að reyna að vinna úr þessu líkt og öðru. Ef ég man rétt var þetta samþykkt í vor, ekki satt? Tíminn hefur því svo sem ekki verið mjög mikill, svo ég beri blak af mínu fólki, sérstaklega á þeim tímum sem nú eru. Það sem kemur til greina, þar sem þetta er ekki fjármagnað í fjármálaáætlun, er að skoða, líkt og þingmaðurinn benti á, hvort hægt sé að taka eitthvað af öðrum liðum. Er hægt að reyna að tryggja þessu fjármagn þegar við horfum til lengri framtíðar, þegar næsta áætlun kemur?

Eins og staðan er núna er áherslan á að efla opinberu þjónustuna, líkt og við höfum farið í gegnum í umræðunni. Það kæmi í hlut Sjúkratrygginga að semja um þetta. En þetta er nokkuð sem skoða þarf í heild sinni: Hvaðan getur þetta fjármagn komið? Er hægt að fá nýtt fjármagn inn á næstu árum? Ég held ég geti ekki svarað þessu betur.