151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[14:45]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur nú þegar borið á góma hér og ég ætla ekki að fjölyrða um þann þátt hennar sem lýtur að nýsköpun. Stofnunin hefur verið til síðan 2007 og margt breyst á þeim tíma sem liðinn er. Nú þegar rekstri þar verður breytt og hún lögð niður hef ég fulla trú á því og traust að nýsköpunarmálunum verði komið vel fyrir vítt og breitt um landið.

Mig langar samt sem áður að ræða um málefni Nýsköpunarmiðstöðvar á vissan hátt, þ.e. þann hluta sem snýr að byggingarrannsóknum og mannvirkjum og útgáfu á svokölluðum Rb-blöðum. Starfsemin hefur allan tímann snúist um mjög mikilvægar rannsóknir á húsamyglu og steinsteypuþróun sem hefur leitt af sér ákaflega merkilega hluti, m.a. steinsteypu sem er sú umhverfisvænasta í heimi, kölluð Eco-Crete. Það er jú þannig að eitt tonn af gróðurhúsalofttegund losnar fyrir hvert tonn af steinsteypu sem er framleidd og sett á sinn stað. Þetta eru því mjög mikilvægar rannsóknir. Þarna fara líka fram rannsóknir á malbiki.

Það sem mér liggur á hjarta er að þessi tegund rannsókna og þessi tegund mælinga þarf að vera óháð, ekki komin undir almennri samkeppni í samfélaginu. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvernig þessu verður komið fyrir. Fer þetta undir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, háskóla, fær Keldnaholtið að vinna áfram þar að rannsóknum sínum, þ.e. þessi starfsemi o.s.frv.? Það er mjög mikilvægt að byggingarrannsóknir séu með góðum skikk í samfélaginu.