151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[15:16]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég fagna því að fá tækifæri til að svara að nýju spurningu hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar þegar hann spurði mig um gögnin. Út af spurningunni fór ég að efast um að gögnin hefðu skilað sér til atvinnuveganefndar, þau gögn sem óskað var eftir. En það eru tíu dagar síðan við skiluðum þeim til atvinnuveganefndar, gögnum um feril málsins og þeim gögnum sem stuðst var við þegar ákvörðun var tekin um þau áform að leggja stofnunina niður og finna þeim verkefnum farveg.

Varðandi Tækniþróunarsjóð og þessa samkeppnissjóði þá er það alveg rétt að það er í raun ótrúlegt hve mikill kraftur er í fólki og hugmyndaflugið ótakmarkað og endalaust. Við setjum meiri og meiri fjármuni í sjóðinn en áfram hefur hlutfallið verið að fara niður, sérstaklega þessi aukaúthlutun nú síðast þar sem það fór niður í 8%, en hefur verið töluvert yfir það að undanförnu. En við erum að bæta í. Í raun er 50% aukning í Tækniþróunarsjóð núna, sem eru auðvitað ofboðslega miklir fjármunir. Tækniþróunarsjóður er ótrúlega mikilvægt verkfæri í nýsköpunarumhverfinu. En ég vil samt alltaf nefna það með, af því að mér finnst það mikilvægt og ég er hrædd um að ef ég geri það ekki geri það enginn, að opinber stuðningur við nýsköpun er mikilvægur en nýsköpun og sterkt umhverfi stendur ekki og fellur með því. Þegar við erum að tala um frekari stuðning, eins og við höfum verið að gera núna, hvort sem það er í endurgreiðslu til rannsókna og þróunar, þessa samkeppnissjóði, stuðning út á land, stofnanir og allt það sem við erum að gera, hræðist ég svolítið þá tilhneigingu í umræðunni, og ég er ekki að gera það að orðum hv. þingmanns, að ríkisvaldið eigi að koma of mikið inn í það umhverfi. Við þurfum að passa okkur á þeirri tilhneigingu almennt í umræðunni. Þetta umhverfi snýst einmitt um að mynda þessi tengsl og það skiptir ofboðslega miklu máli að vera með öflugt fjármögnunarumhverfi.

En 50% aukning í Tækniþróunarsjóð er mikilvæg á þessum tímum og er augljós þörf fyrir það þegar við horfum á hversu lágt úthlutunarhlutfallið hefur verið. Það er einmitt þannig að framúrskarandi verkefni hafa fengið neitun, framúrskarandi verkefni sem alla jafna ættu að fá úthlutun úr svona sjóði en hafa ekki fengið hana. Það er auðvitað synd að sjá á eftir slíkum verkefnum.