151. löggjafarþing — 6. fundur,  8. okt. 2020.

sveigjanleg símenntun.

[11:08]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Við erum einmitt að hugsa um þetta fólk. Ein af þeim aðgerðum sem við erum að ráðast í ber heitið Nám er tækifæri og er ætlað að stuðla að því að þeir sem eru atvinnulausir geti sótt sér það nám sem þeir kjósa. Í það átak fara margir milljarðar þannig að við erum svo sannarlega að hugsa um þennan þátt. Eins vil ég nefna nýjan Menntasjóð. Við höfum farið í algjöra kerfisbreytingu þar. Til þess að mæta þeirri stóru áskorun sem kórónuveiran svo sannarlega er og þetta aukna atvinnuleysi þá fimmfölduðum við frítekjumarkið þannig að þeir sem höfðu verið á vinnumarkaðnum geti sótt í nýjan Menntasjóð. Við höfum því ráðist í margar mjög markvissar og uppbyggilegar aðgerðir. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um að mögulega séu til staðar einhverjar aðgangshindranir sökum þess að fólk hafi ekki efni á því að fara í nám. Við þurfum að víkja öllu slíku til hliðar og við erum að hugsa sérstaklega um það. Í samstarfi við Velferðarvaktina erum við að skoða tekjutíundirnar og hvar mögulegar aðgangshindranir eru og við erum líka að fara inn í það. Það er hárrétt, þetta er mjög mikilvægt.