151. löggjafarþing — 6. fundur,  8. okt. 2020.

tekjuskattur.

3. mál
[11:15]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ákveðin straumhvörf hafi orðið einmitt fyrir tilstilli OECD sem hefur beitt sér fyrir aukinni samvinnu ríkja til þess að uppræta skattsvik og þar hefur skipt miklu að menn hafa farið ofan í saumana á öllum helstu ágöllum alþjóðlegrar samvinnu í skattamálum og dregið ríki markvisst að borðinu. OECD hefur beitt sér fyrir upplýstri umræðu um ávinninginn af því fyrir alla.

Hér er nefnilega svo margt annað undir en bara tekjustofnar ríkisins. Við erum um leið að fást við samkeppnishindranir. Við erum að tala um að í alþjóðaviðskiptum þurfi fyrirtæki að keppa á sama grundvelli. Þeir sem hafa fundið holur í skattlagningunni eða veikleika í skatteftirliti eru að skjóta sér undan því að keppa á sanngjörnum grundvelli eða við sanngjarnar aðstæður. Ég vil meina að OECD hafi unnið gríðarlega þarft verk. Þátttaka okkar í þeirri vinnu og vilji okkar til að fara að þeim leiðbeiningum sem þar hafa verið gefnar stýrir dálítið okkar áherslum.

Hér erum við í raun að stíga tiltölulega einfalt skref í framhaldi af öðru því sem hefur verið unnið og varðar einfaldlega skatteftirlitshlutann, að menn geri sér grein fyrir því að þeir geta fengið á sig sektir ef þeir sinna ekki skjölunarskyldunni sem er grundvallarforsenda þess að hægt sé að skatta þessi mál á réttan hátt.