151. löggjafarþing — 6. fundur,  8. okt. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[12:43]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna. Ég vil taka undir það sem hann sagði í ræðu sinni um mikilvægi þess að við getum staðið undir öllum þeim útgjöldum sem eru fram undan og þeim mikla halla sem ríkissjóður er kominn í. Þá kem ég að því sem ég fór aðeins inn á áðan í andsvari við hæstv. ráðherra en það eru bætt skattskil og baráttan við skattsvik, sem er mikilvæg vegna þess að ríkissjóður þarf á öllu að halda í þessum aðstæðum. Það er nauðsynlegt að vinna bug á þeirri meinsemd sem skattsvik eru. Eins og ég sagði áðan er talið að þau nemi um 80 milljörðum á ári sem er gríðarlega há upphæð sem okkur munar svo sannarlega um.

Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að við eigum að taka þessi mál föstum tökum. Vissulega er það jákvætt að hér eigi að auka skatteftirlit en ég held að það þurfi að gera betur. Auk þess ræddi ég það í umræðunni um fjárlagafrumvarpið að það eru allt of háar tapaðar skattkröfur á hverju einasta ári, á þessu ári rúmlega 17 milljarðar og hækkar á milli ára um hundruð milljóna, 300 eða 400 milljónir, minnir mig frá, frá síðustu fjárlögum. Hér er eitthvað að í okkar kerfi. Það getur ekki verið að á hverju einasta ári séum við að horfa á svona gríðarlega háar upphæðir. Hér er um lögmætar skattkröfur að ræða sem skila sér ekki í ríkissjóð. Hæstv. ráðherra varð tíðrætt um samstöðu í samfélaginu og sátt þegar kemur að skattamálum og það er náttúrlega ekkert sanngjarnt við það að ákveðin fyrirtæki skuli geta komist upp með að greiða ekki sín gjöld og þá náttúrlega einstaklingar líka þegar kemur að töpuðum skattkröfum. Þetta er málefni sem er brýnt að taka föstum tökum. Hæstv. ráðherra nefndi það í ræðu sinni í tengslum við fjárlögin að hann væri sammála mér í því að það þyrfti að gera mun betur í þessu og ég vona svo sannarlega að það verði gert.

Við ræddum aðeins bótasvikin áðan og það er mikilvægt að taka á því máli líka. En ég verð að segja að það kom fram í svari hæstv. ráðherra að það hefði ekkert verið gert í tíð þessarar ríkisstjórnar til þess að koma í veg fyrir þau. Það lýtur einnig að því sem ég nefndi að þá er hægt að gera betur við þá sem sannarlega þurfa á almannatryggingakerfinu að halda. Allt varðar þetta tekjur ríkissjóðs sem eru gríðarlega mikilvægar og ekki síst núna í þeim erfiðu kringumstæðum sem við erum í.

Ég vil koma aðeins inn á og nefna í upphafi 11. gr. frumvarpsins þar sem er fjallað um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Maður spyr: Hvaða kröfur gerir ríkissjóður á móti til starfseminnar þannig að eðlilegt samræmi sé milli raunvaxtar, ef svo má að orði komast, eftirlitsins og rekstrarmarkmiða ríkissjóðs? Spurningin er: Getur Fjármálaeftirlitið, sem er reyndar komið undir Seðlabankann núna, rekið þessa starfsemi bara hvernig sem er? Talað er um að gjaldið eigi að standa straum af kostnaði við eftirlitið. Við síðustu fjárlög var ákveðið að ganga á eigið fé stofnunarinnar, Fjármálaeftirlitsins. Því er haldið áfram í þessum fjárlögum. Það er ákvörðun ríkisstjórnarinnar að eftirlitið gangi á eigið fé og þar með lækka gjöldin. Maður spyr sig: Er það nauðsynlegt? Nú er búið að vera að lækka bankaskattinn og flýta því ferli. Ég hef ákveðnar efasemdir hvað það varðar. Ég hefði viljað sjá hluta af þessum fjármunum varið til þess að aðstoða þá sem glíma við erfiðleika í tengslum við faraldurinn. Ég sé eiginlega ekki tilgang með því að lækka þetta gjald með þessum hætti á viðskiptabankana, eins og ég nefndi þegar málið var afgreitt hér fyrir ári síðan og ég stend við það. Maður spyr sig sérstaklega í ljósi þess að bankaskatturinn hefur verið lækkaður hvort það sé þörf á að fara líka þessa leið.

Ég vil nefna hérna sérstaklega 28. gr. þar sem fjallað er um Ríkisútvarpið. Það á að hækka gjaldið sem nánast allir landsmenn greiða, að vísu ekki ungt fólk og eldri borgarar. Á fjárlögum fær Ríkisútvarpið um 4,5 milljarða kr. Það er full þörf á því, herra forseti, að ræða það í þingsal hvort eðlilegt sé að setja svo mikla fjármuni í þessa stofnun. Mér fannst reyndar athyglisvert og ánægjulegt að fjármálaráðherra tók undir það hér í fyrirspurnatíma í morgun, í svari við fyrirspurn frá hv. þm. Bergþóri Ólasyni um hvort ekki væri rétt að menn gætu ráðstafað þessu sérstaka gjaldi valkvætt til einkarekinna fjölmiðla. Ég held að það sé mjög góð hugmynd og hvet ráðherra hæstv. til þess að skoða hana.

Nú eru uppi hugmyndir um að taka Ríkisútvarpið út af auglýsingamarkaði og þá spyr maður sig: Á ríkissjóður að greiða fyrir það? Þessi gjöld eru að hækka núna um 116 millj. kr. á komandi fjárhagsári í þessu frumvarpi. Í fyrra voru þetta 120 milljónir. Ég held að það sé bara almenn nútímakrafa, ef svo má að orði komast, að fara yfir það hvort það sé almennur samfélagslegur vilji fyrir því að setja svo háa upphæð í þessa starfsemi sem er jú á samkeppnisgrundvelli.

Ég vil líka koma aðeins inn á kolefnisgjaldið sem hefur hækkað úr öllu hófi í tíð þessarar ríkisstjórnar. Það er bara þannig. Tekjur af því eru nú áætlaðar um 5,6 milljarðar kr. Hækkun vegna flutningsjöfnunar er 175 milljónir. Almenn hækkun kolefnisgjalds er 2,5% verðlagshækkun árið 2021. Þetta náttúrlega hækkar verð á lítranum af bensíni og dísilolíunni og kemur verst niður á þeim sem búa á landsbyggðinni og þurfa að keyra lengri veg en gengur og gerist á höfuðborgarsvæðinu. Það verður að segjast eins og er að hér er um síhækkandi skattheimtu að ræða á almenning og hinn almenna bifreiðareiganda. Ef við förum bara yfir það í þessu frumvarpi hvað þessi gjöld, þessar hækkanir, snúa mikið að hinum almenna bifreiðareiganda. Það er bara stórkostlegur lúxus að eiga bifreið á Íslandi þar sem bíll er nauðsyn eins og við þekkjum, sérstaklega á Íslandi í þeirri veðráttu sem við búum við. Ég tel fulla ástæðu til þess að fara aðeins yfir skattheimtu á bifreiðaeigendur yfir höfuð.

Svo má ekki gleyma því sem hefur komið fram í umræðunni að það hafa ekki allir efni á því að kaupa sér rafmagnsbifreið og slíkar bifreiðar henta ekki öllum. Það virðist alltaf gleymast í þessari umræðu að það er kostnaðarsamt fyrir þá sem eru kannski ekki alveg á nýjum bílum að fara að skipta yfir í rafmagnsbifreið, það er ekki hægt að ætlast til þess. Það er bara ekki öllum fært. Það er alveg ljóst að kolefnisgjaldið sem hefur verið hækkað verulega í tíð þessarar ríkisstjórnar bitnar verst á tekjulægstu hópunum og þeim sem hafa ekki efni á því að kaupa sér nýja bifreið sem losar minna.

Það er líka mjög athyglisvert að hæstv. umhverfisráðherra hefur viðurkennt að erfitt sé að meta árangurinn af þessari gjaldtöku. Það kom fram á fundi fjárlaganefndar þegar umhverfisráðuneytið kom fyrir nefndina í tengslum við síðustu fjárlög að ráðuneytið getur ekki sagt til um árangurinn af þessu gjaldi. Það er auðvitað ámælisvert að ekki sé hægt að fá að vita hver árangurinn er af gjaldinu. Það er bara sjálfsögð krafa, herra forseti. Notum við minna af dísilolíu eða notum við minna af bensíni? Við höfum engar tölur um þetta. Það þarf að liggja fyrir. Hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt að árangur felist í því að verið sé að fjölga rafmagnsbílum mjög hratt. Jú, það er vissulega ánægjulegt en engu að síður verður að jafna þessum skatti niður á landsmenn með sanngjörnum hætti og það gerir þessi skattheimta ekki.

Við Miðflokksmenn höfum talað mikið um að það er grundvallaratriði að skattinum sé jafnað niður á landsmenn með sanngjörnum hætti. Sumir þingmenn hafa einfaldlega glaðst yfir þessari skattheimtu sem mér finnst mjög einkennilegt. Hvernig getum við t.d. glaðst yfir einhverju sem er viðurkennt að ekki er hægt að meta árangurinn af? Það er bara þannig. Það er alveg ljóst að fara þarf í saumana á þessu. Við vitum að bifreiðar losa um 6–8% af koltvísýringi en bifreiðaeigendur bera um 90% af þessum losunartengdu sköttum. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra þyrfti líka að láta meta hvaða heimilissamsetningu hækkun kolefnisgjaldsins leggst einkum þungt á. Það er nauðsynlegt að fá að vita það. Og maður spyr hvort ekki sé sú hætta fyrir hendi að verið sé að skattleggja tekjulægsta hópinn sem á öðrum stöðum í frumvarpinu er síðan ætlunin að styðja við, með t.d. skattalækkunum sem eru svo sem ágætar. Það er nauðsynlegt að fá þetta fram. Gjaldið er að hækka núna um áramótin og það þýðir hækkun á bensíni og dísilolíu. Það er nauðsynlegt að fá fram hver árangurinn er.

Við þekkjum síðan með kolefnislosunina og skurðina og allt það sem hefur verið nefnt að það liggja ekki fyrir neinar tölur um það hversu margir nýir skurðir eru grafnir á hverju ári á Íslandi. Það eru upplýsingar sem þurfa að liggja fyrir en þetta virðist allt vera meira og minna órannsakað, það verður að segjast alveg eins og er. Það að skattleggja með þessum hætti þegar við vitum ekki hver árangurinn er á náttúrlega ekki að eiga sér stað.

Herra forseti. Vissulega eru loftslagsmálin alvarleg og við í Miðflokknum lítum þau alvarlegum augum eins og allir flokkar gera. Við leggjum hins vegar ríka áherslu á að það liggi fyrir hverjar séu réttu leiðirnar, hvaða leiðir beri árangur og hvaða leiðir ekki. Þetta er algerlega nauðsynlegt að liggi fyrir. Það er sjálfsögð og eðlileg krafa að skattgreiðendur fái að vita þegar á þá eru lagðir nýir skattar, hvort sem það er kolefnisskattur eða skattar á flúoreraðar gastegundir, lofttegundir og hvað þetta heitir allt saman: Hver er árangurinn? Ég er sannfærður um að almenningur myndi sýna því meiri skilning, alla vega meiri skilning en nú er, að þessi skattheimta sé tekin upp ef menn vissu fyrir víst hver árangurinn væri. En það liggur ekki fyrir. Það vantar yfirsýn að mínu mati hvað þetta varðar og ríkisstjórnin hefur bara vaðið áfram í þessum málaflokki til að sýna að hún sé að gera eitthvað. Aðgerðirnar felast í skattahækkunum en enginn veit hver árangurinn er. Svo mörg voru þau orð um kolefnisskattinn.

Ég vil víkja næst að erfðafjárskattinum sem er 10% af skattstofni dánarbús. Ég fagna því að hér eigi að gera breytingar á frítekjumarkinu. Erfðafjárskattur er skattur þar sem verið er að greiða skatt af fjármunum sem þegar er búið að greiða skatta af. Við í Miðflokknum höfum lagt áherslu á að þessi skattur verði afnuminn. Þeim sem auðnast að skilja eftir sig einhverjar veraldlegar eigur í lífinu fyrir afkomendur sína við andlát og hafa á lífsleiðinni greitt skatta af þessum sökum, þeir eiga eignir og það vita allir. En það er búið og það eru gömul sannindi og ný í skattamálum, bæði í nútíð og fortíð, að fólk sættir sig við að greiða sanngjarna skatta en kemur sér helst undan því að greiða ósanngjarnan skatt, ef skattheimtan er ósanngjörn. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að lækka strax þennan skatt niður í 5% og síðan afnema hann. Við höfum talað fyrir því í Miðflokknum. Það er nauðsynlegt að skoða skattalega meðferð á arfi sem fólk lætur eftir sig. Það er t.d. orðið sífellt algengara að arfur sé greiddur fyrir fram. En þessi breyting er í rétta átt og ég fagna henni.

Það liggja fyrir fjölmargar skoðanakannanir um skattheimtu á Vesturlöndum og það er sama hvar er spurt, alls staðar telur almenningur að skattar séu ósanngjörnustu skattarnir sem ríkisvaldið leggur á. Erfðafjárskatturinn er, herra forseti, einfaldlega ósanngjarn út frá almennum viðmiðum um sanngirni í skattheimtu. Í erfðafjárskattinum felst tvísköttun, það er verið skattleggja það sem fólk á að loknu ævistarfi, afraksturinn eftir að búið var að greiða skatta af öllu öðru. Þess vegna er nauðsynlegt í mínum huga að við stígum það skref til fulls, innan ekki svo langs tíma, að leggja þennan skatt af.

Að lokum vil ég segja að þetta frumvarp er að öðru leyti hefðbundið. Það er þó jákvætt að helstu gjaldahækkanir eru aðeins lægri en vísitöluhækkunin þannig að það er gott fordæmi og tengist náttúrlega lífskjarasamningunum, geri ég ráð fyrir. En það er þó verið að hækka t.d. úrvinnslugjöldin, þau eru reyndar að hækka um meira en 33%. Ég held að það sé nauðsynlegt að þessi vinnubrögð verði viðhöfð í framtíðinni. Það á ekki alltaf að vera ríkissjóður sem gengur fram fyrir skjöldu að hækka gjöld um hver einustu áramót sem síðar hækkar verðbólguna sem við megum alls ekki við, hækkar lán heimilanna o.s.frv. Þess vegna spyr maður: Er það einungis vegna þess að þetta snýr að einhverjum samningum, lífskjarasamningum, kjarasamningum, sem menn eru að fara þessa leið núna? Ég held að þetta ætti að vera gott fordæmi inn í framtíðina, að menn hugsi sig vandlega um áður en þeir fara þá leið að hækka alltaf um hver einustu áramót. Maður veltir því fyrir sér (Forseti hringir.) hvort frumkvæðið komi kannski ekki frá ríkisstjórninni heldur meira frá verkalýðsfélögunum og verkalýðshreyfingunni. (Forseti hringir.)

Að öðru leyti, herra forseti, ætla ég að koma inn í þessa umræðu á síðari stigum.