151. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2020.

lögmæti og meðalhóf sóttvarnaaðgerða.

[15:24]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Mig langaði að ræða við hæstv. dómsmálaráðherra um lögmæti og meðalhóf þegar kemur að sóttvarnaaðgerðum ríkisstjórnarinnar og almannavarna. Nú er það svo að það ríkir neyðarástand. Við erum á neyðarstigi almannavarna. Þá getur, eins og almennt gildir um neyðarástand, þótt réttlætanlegt að skerða mannréttindi fólks. Nú er umræðan um þessar skerðingar á frelsi fólks, á mannréttindum þess, orðin frekar hávær í samfélaginu, skiljanlega. Það er mikið um takmarkanir, það er mikið um skerðingar á grundvallarmannréttindum fólks nú í samfélaginu. Þá er eðlilegt að við förum yfir lögmæti þessara aðgerða og meðalhófið sem þarf að ríkja þegar ákvörðun er tekin um slíkar aðgerðir.

Ég spyr hæstv. dómsmálaráðherra vegna þess að hún fer fyrir almannavörnum og vegna þess að mannréttindi og skuldbindingar okkar gagnvart mannréttindum eru á hennar hendi.

Mig langar að fara með henni yfir nokkrar grundvallarreglur sem ég held að stjórnvöld þurfi að standa sig betur í að miðla til almennings og standa sig betur í að meta en gert hefur verið. Við vitum að til þess að skerða mannréttindi — það má reyndar ekki skerða þau öll, t.d. ekki réttinn til lífs og við megum ekki byrja að pynda fólk bara af því að það er neyðarástand, en það má skerða t.d. ferðafrelsi og samkomufrelsi eins og við höfum verið að gera — þarf að vera lögmætt markmið sem við vitum að er fyrir hendi. Það þarf að byggja á lögum. En hér er mikilvægasti prófsteinninn fyrir lýðræðislega ríkisstjórn sem virðir mannréttindi: Það þarf að virða meðalhóf.

Ég veit að hæstv. dómsmálaráðherra þekkir þessa reglu en ég vil spyrja hana: Eru stjórnvöld að miðla því nógu vel hvort meðalhófsreglunni sé framfylgt við ákvörðun á skerðingu borgararéttinda á Íslandi? (Forseti hringir.) Mætti ekki miðla þeim betur til almennings?