151. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2020.

ráðstafanir gegn óréttmætri takmörkun á netumferð o.fl.

23. mál
[16:06]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að brjóta regluna, sem er sú að maður eigi ekki að spyrja spurninga sem maður veit ekki svarið við. Ég er að velta fyrir mér varðandi undanþágurnar sem hæstv. ráðherra nefndi. Þær voru víst settar til að koma til móts við litla aðila sem þetta yrði þá íþyngjandi fyrir. Ég er svolítið að velta fyrir mér hvort hæstv. ráðherra geti útskýrt nánar á hvaða hátt þetta yrði íþyngjandi fyrir þá aðila, og þá sér í lagi hvað myndi hindra þá í að nýta þá straumlínulögun á viðskiptaferlunum sem eru líklega í boði vegna eðli netumferðar eða vegna þess að aðrir aðilar munu væntanlega gera ráðstafanir til að geta betur selt vörur og þjónustu yfir netið og yfir landamæri án þess að mismuna.

Í stuttu máli er ég að velta fyrir mér með hvaða hætti það sé of íþyngjandi fyrir litla aðila að mismuna ekki á grundvelli staðsetningar, samanber tilgang málsins. Mig grunar nú að ég misskilji eitthvað hér, en þá þætti mér vænt um að hæstv. ráðherra hjálpaði mér að skilja þann hluta aðeins betur.