151. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2020.

barnalög.

11. mál
[16:30]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Ég tek undir að það er mikilvægt að við klárum þetta mál á þessu þingi. Varðandi fyrirspurn hv. þingmanns þá er í þessu ákvæði og í allri vinnu nefndarinnar, sem skoðaði hvernig þessu yrði best hagað, forsendan um sameiginlegan vilja og sameiginlega ákvörðunartöku foreldra. Það er hægt að leita til sýslumanna um ráðgjöf um einstök atriði sem geta komið upp í þessu samkomulagi. En forsendan er aftur á móti alltaf skýr. Það verða báðir aðilar að vilja þetta fyrirkomulag. Ef við værum t.d. með tvö lögheimili og viljinn myndi bresta hjá öðrum aðila, þá þyrfti í raun að fara í mál til að hætta í þessi úrræði. Þess vegna erum við með lögheimili og búsetuheimili. Þess vegna getur annar aðilinn, ef hann telur ekki forsendur lengur til að ala barn upp í sátt á tveimur heimilum, hætt í þessu úrræði. Þá þarf auðvitað að fara fram venjuleg umræða um allt annað sem kemur að högum barnsins, væntanlega hjá sýslumanni, og fá úrskurð þar um. Um þetta er ekki hægt að fá neinn úrskurð, þetta er bara um úrræðið sjálft en ekki neina aðra ákvarðanatöku í kjölfarið. Sýslumaður úrskurðar um ákvörðunina, að fara í skipta búsetu, en ekki um meðlag eða greiðslu útlagðs kostnaðar eða hvernig á að hátta framfærslu milli aðilanna. Það verður undir aðilunum og foreldrunum komið hvernig þau hátta því á milli sín af því að þau hafa ákveðið að ala barn upp í sátt á tveimur heimilum og þá verður öllu skipt eins og þau kjósa sjálf.

Ég skil samt alveg hv. þingmann og ég held að þessi umræða muni koma fram í nefndinni hvernig sýslumaður getur þjónustað aðila ef þeir lenda í einhverjum vandræðum með þetta úrræði, áður en því sé hætt. En lykilforsendan er algjörlega, og það er mikilvægt, (Forseti hringir.) sama hvaða úrræði við fjöllum um, samstarfsvilji beggja foreldra til allra þátta í uppeldi barnsins.