151. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2020.

barnalög.

11. mál
[16:43]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst vil ég segja, svo að það sé algerlega skýrt í þessari umræðu, að annar aðili verður að geta rift þessu úrræði einhliða. Ef annar aðilinn er ósáttur og getur ekki rift samkomulaginu þá er úrræðið fallið um sjálft sig. Úrræðið byggist á sátt foreldra og ef annað foreldrið er ekki sátt lengur þá er engin sátt og þá getum við ekki haft þetta úrræði í boði fyrir þá foreldra. Skipt búseta barns er einungis í boði fyrir foreldra sem eru í algjörri sátt og ef annað er ósátt á það kost á að rifta úrræðinu.

Varðandi barnabæturnar er rétt hjá hv. þingmanni að það verður að meta hvorn aðila fyrir sig. Ég sé ekki betur en svo að foreldrar fái 50% af barnabótunum, en ekki er hægt að reikna foreldra saman sem eru ekki í sambandi. Tekjuskerðingar og möguleikar foreldra eru því metnir hjá hvoru þeirra fyrir sig. Það er mjög mikilvægt. Þetta var unnið með fjármálaráðuneytinu. Lögheimilisforeldrið fékk áður 100% en nú er því skipt 50% og 50% og þá reiknað með tekjuhlutfalli hvors foreldris fyrir sig. Það er ekki hægt að tengja foreldra saman eins og þegar þau voru hjón, ef það var þannig. Það er ekki hægt að reikna foreldrana saman og skerða svo barnabætur hvors um sig. Það verður alltaf að líta til barnabóta hvors aðila um sig og tekjuskerðinga hans og ekki reikna þá saman, enda eru þeir núna tveir óskyldir aðilar að ala upp barn saman. En þetta verður að vera skýrt og er væntanlega eitthvað sem hv. nefnd mun skoða betur.