151. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2020.

barnalög.

11. mál
[16:57]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Herra forseti. Mig langaði til að koma tvennu að í umræðu um þetta mál sem er að mörgu leyti gott. Markmiðið er vissulega mjög gott og jákvætt en það er bjargföst skoðun mín að verklagið eða umgjörðin sem verði smíðuð um þessa hugmyndafræði muni hafa allt um það að segja hvort þetta góða markmið nái fram að ganga. Þar hljóta tveir punktar fyrst og fremst að vera undir. Annars vegar að okkur takist að varða okkur leið í gegnum svona frumvarp og svona hugmyndafræði með það að leiðarljósi að gæta skuli hagsmuna barna í hvívetna og hins vegar að það séu ekki neinir þeir innbyggðir hvatar í þessu kerfi að annað hvort foreldri sjái hagsmunum sínum betur borgið með því að vera þessari hugmyndafræði mótfallið. Ég sé þetta mál þeim augum að það sé jákvætt, en á því eru ákveðnir praktískir gallar eða spurningar í það minnsta sem á eftir að leysa úr. Ég myndi kannski ekki ganga svo langt að taka undir það mat þeirra ræðumanna sem hér hafa talað um að þetta mál sé nánast fullunnið og komið í höfn.

Þær breytingar hafa verið gerðar núna frá því þetta mál var síðast til meðferðar að gildistíminn hefur breyst og það hefur farið fram mat á fjárhagslegum áhrifum þess. En það var dálítið sterk gagnrýni eða umræða um þann vinkil sem lýtur að barnabótunum, tekjutengdum barnabótum. Ég heyrði svör hæstv. dómsmálaráðherra þar um og þau eru jákvæð. En ég get þó sagt að af hálfu þeirra sem gáfu umsögn um þetta frumvarp var þessi skilningur ekki svona skýr. Það þarf þá a.m.k. að skerpa á því hvernig fara eigi að því að reikna þetta út þannig að t.d. það foreldri sem er tekjulægra beri ekki halla af því að fara þessa leið. Þetta er stórt atriði. Veruleiki margra er auðvitað sá að fjárhagslegt atriði eins og þetta getur orðið til þess að það næst ekki sátt um að fara þessa leið. Ef löggjöfin nær ekki að tryggja þetta held ég öll þessi hugmyndafræði sé í hættu. Í því samhengi þarf að muna að það er ekki í öllum tilvikum þannig að öll samskipti séu farsæl þó að það séu kannski ekki áberandi átök í gangi. Mér finnst að það þurfi líka í þessu sambandi að hafa í huga að það séu engir innbyggðir hvatar í frumvarpinu sem geti stuðlað að því að foreldrar verði á móti því frá upphafi að fara þessa leið. Það verður að vera skýrt og við séum líka meðvituð um þann kynjavinkil sem getur verið á svona máli, sem er sá að konur eru enn sem komið er frekar með lægri laun en karlar og margar konur, a.m.k. stór hópur kvenna í þessum sporum, gætu séð þetta fyrir sér sem rök gegn því að fara þessa leið.

Ég fagna svörum dómsmálaráðherra hvað þetta varðar. Ég legg áherslu á að þetta verður að vera algerlega skýrt og bind vonir við að við náum að ramma það inn í meðförum málsins í allsherjarnefnd.

Mér finnst líka að við þurfum að vera læs á það að aðstæður barna í þessum sporum og þessari stöðu eru auðvitað misjafnar. Það þarf, eins og fram hefur komið, að vera öruggt að hægt sé að tryggja börnum þann rétt að þau njóti úrræða sem kveðið er á um í frumvarpinu og þar sé litið til barnasáttmálans sem við höfum. Hann sé meira en eitthvert sjónarmið heldur fái að hafa það gildi sem honum er ætlað.

Umboðsmaður barna fagnaði þessu frumvarpi á síðasta þingi en ég vísa að öðru leyti til þess sem þar er rakið. Ég vil taka undir það sem fram hefur komið að í þessu sambandi verður að líta sérstaklega til stöðu fatlaðra barna, að þau eigi raunverulegan kost á því að búa á heimili beggja foreldra.

Það voru þessir tveir efnispunktar sem ég tók með mér í umfjöllun um þetta mál í allsherjarnefnd, annars vegar um tekjutengdar barnabætur og hins vegar sú staða við skilnað eða sambúðarslit, þegar þetta samtal um búsetuna á sér stað milli foreldra, að valdaójafnvægi er fyrir hendi. Það þurfi að skerpa á því enn frekar að leikurinn sé jafn þar og staða foreldra jöfn út frá þeirri stöðu sem ólíkar fjölskyldur eru í.

Svo ég rammi þetta inn þá myndi ég segja að hér sé um jákvætt mál að ræða. Ég get ekki tekið undir það að málið sé allt að því fullunnið vegna þess að það á eftir að leysa úr tveimur grundvallaratriðum; um fjárhagslegu hagsmunina sem ég held að geti orðið þess valdandi að fólk verði smeykt við þessa leið og svo þær aðstæður þegar um valdaójafnvægi milli foreldra er að ræða. En ég ítreka að ég var ánægð með svör dómsmálaráðherra að þessu leyti og bind vonir við að hægt verði að leysa úr þessu og vinna málið betur inni í nefndinni.

En svo ég ljúki máli mínu á því sem ég byrjaði á þá held ég að til þess að þetta mál geti náð fram markmiði sínu þá muni umgjörðin sem við smíðum hér hafa allt um það að segja og hér þarf meira til en gott markmið.