151. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2020.

almenn hegningarlög.

132. mál
[18:16]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst varðandi kæru vegna umsáturseineltis. Það er undir lögreglu komið að geta fengið nálgunarbann, algerlega sjálfstætt án þess að það sé krafa brotaþola sem verður fyrir umsáturseineltinu. Það er alveg skýrt að lögregla getur alltaf, án þess að það sé sérstök ósk brotaþola, farið fram á nálgunarbann vegna slíkrar hegðunar.

Varðandi internetið hefur auðvitað verið rætt um það, m.a. á alþjóðlegum opinberum vettvangi, að mikilvægt sé að tekið sé á öllum birtingarmyndum umsáturseineltis. Það getur flokkast undir það að vera í gegnum tölvupósta, á samfélagsmiðlum eða annars staðar á internetinu til að ergja, áreita eða hóta fólki eða með annarri háttsemi. Þetta getur fallið undir þá skilgreiningu sem við höfum hér og þess vegna er ákvæðið svolítið víðtækt. Hvernig sem tæknin mun þróast og hvað annað mun verða til þess fallið að hægt sé að nýta það í þessa háttsemi mun ákvæðið væntanlega ná utan um það, hvernig svo sem löggjöfin mun breytast í framtíðinni eða tækniþróunin o.s.frv.

Þriðja spurningin var varðandi þá sem eru nákomnir þeim sem kæra umsáturseinelti eða verða fyrir því og hversu oft það þarf að vera. Hegðunin ein og sér gagnvart ættingja getur talist hegðun sem er til þess fallin að vekja ótta hjá hinum einstaklingnum. En ef hún á að flokkast sem umsáturseinelti gagnvart ættingjanum þarf hún að vera endurtekin. Ég bind vonir við að það verði skýrt á þann hátt. Við erum að reyna að ná utan um þessa misjöfnu háttsemi með því að hún veki ótta og óhug. Og það getur auðvitað falist í því að nálgast fólk sem stendur brotaþola nær.