151. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru .

160. mál
[18:40]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru þar sem lagt er til að framlengdar verði bráðabirgðaheimildir dómstóla, lögreglu og sýslumanna til að nota fjarfundabúnað og rafrænar lausnir við meðferð mála í ákveðnum tilvikum til að koma í veg fyrir réttarspjöll af völdum útbreiðslu kórónuveiru.

Umræddar bráðabirgðaheimildir, sem komið var á með lögum nr. 32/2020 en runnu út þann 1. október sl., hafa reynst vel. Samkvæmt upplýsingum sem dómsmálaráðuneytið hefur aflað frá dómstólasýslunni hafa dómstólar notast við rafrænar lausnir frá gildistöku laganna, m.a. við fyrirtökur, aðalmeðferðir, og við framlengingu gæsluvarðahaldsúrskurða. Álit dómstólasýslunnar er að án laganna hefði orðið að fresta málum í enn þá ríkari mæli af völdum útbreiðslu kórónuveirunnar en raunin varð. Þá liggur fyrir að vegna útbreiðslu veirunnar muni sýslumenn í auknum mæli þurfa að beita rafrænum lausnum við meðferð dánarbúa, með það að markmiði að fækka óþarfakomum á sýsluskrifstofur, og því er talið mikilvægt að framlengja heimildir til þess.

Þá hefur það fyrirkomulag að lögreglu sé unnt að taka skýrslu á rannsóknarstigi í gegnum fjarfundabúnað reynst vel og engir meinbugir komið í ljós.

Í ljósi þess að þær bráðabirgðaheimildir sem samþykktar voru með lögum nr. 32/2020 hafa reynst vel og vegna þess að enn ríkir óvissa vegna útbreiðslu kórónuveiru í íslensku samfélagi, legg ég til að þær verði framlengdar til ársloka 2021.

Þá er jafnframt lagt til með frumvarpinu að skýrt verði að þingfesta megi bæði sakamál og einkamál á fjarfundi. Slíkt er nú þegar heimilt að því er varðar sakamál og hefur gengið vel og þykir ekki ástæða til annars en að heimila það líka með einkamál.

Loks er rétt að árétta að frumvarpið felur í sér heimildarákvæði. Gæta verður varfærni við notkun þeirra og ef fyrirséð verður í einstökum málum að ekki verði unnt með þeim að tryggja að fullu réttindi sakborninga og annarra málsaðila verður að telja að forsendur fyrir beitingu þeirra séu ekki fyrir hendi.

Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.