151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Ýmis kerfi í samfélaginu eru undir miklu álagi þessa dagana og það heyrast brestir, í einhverjum tilvikum traustabrestir en á öðrum sviðum er það alvarlegra. Heilbrigðiskerfið hefur fengið að finna til tevatnsins í glímunni við veiruna. Þúsund þakkir til heilbrigðisstarfsfólks um allt land. Róðurinn er þyngstur á Landspítala. Fárveikt fólk er lagt inn vegna faraldursins sem hefur veruleg áhrif á alla aðra starfsemi. Nú kveður enn og aftur við kunnuglegan tón úr þeim ranni. Við getum ekki útskrifað sjúklinga sem hafa lokið meðferð. Stoðkerfið utan spítalans er veikt. Hjúkrunarpláss vantar. Heimaþjónustan dugar ekki til. Sjúklingar eru einir, geta ekki farið heim eða húsnæði er óhentugt.

Já, herra forseti, það er mikið rætt um skort á langdvalarrýmum. Er það vegna þess að þau eru svo sárafá? Nei, reyndar ekki. Hlutfallslega eigum við kannski ekki heimsmet en við nörtum í Evrópumet á því sviði. Er það vegna þess að heilsufar eldra fólks er lélegra hér á landi en annars staðar? Nei, aldeilis ekki, nema síður sé. Spjótin beinast að samfélagsgerðinni, okkur sjálfum, umgjörð sem við búum eldra fólki, hvaða stuðning við veitum því til að geta lifað öruggu, tryggu og sjálfstæðu lífi í ákjósanlegu húsnæði með stuðningi við hæfi og hvaða öryggisumgjörð og nútímalega velferðar- og heilbrigðistækni við veitum. Við hunsum ótal mörg tækifæri í þágu þessa fólks og spólum í sama farinu ár eftir ár. Ráðherra lofar 200, 300, 400 nýjum hjúkrunarrýmum. Þar með er það afgreitt og málið dautt. Hvenær ætlar þessi ríkisstjórn að opna augun fyrir því að þessi þjónustuóreiða gagnvart eldra fólki endar bara á einn veg, uppi á skeri?

Herra forseti. Við erum sannarlega ekki á framtíðarvegi í þessu efni en eitt er víst að leysa þarf strax útskriftarvandann sem blasir nú við enn eitt skiptið á Landspítala og á eftir að gera aftur. Og tryggja þarf að spítalinn geti (Forseti hringir.) gegnt sínu mikilvæga hlutverki sem bráðasjúkrahús á okkar alvarlegu tímum.