151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

jöfn staða og jafn réttur kynjanna.

14. mál
[14:58]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Það hefur verið áhugavert að hlusta á umræðuna hér á undan um önnur mál, þar sem þetta tiltekna frumvarp var m.a. kallað sérstakt gælumál af hv. þingmanni Miðflokksins, Karli Gauta Hjaltasyni. Það er kannski vandinn við jafnréttismál að þau eru oft álitin gæluverkefni. Stundum heyrir maður, meira að segja á því herrans ári 2020, að þetta sé eitthvað sem megi geyma til síðari tíma þegar öll mikilvægu málin séu búin. Þess vegna hvet ég hv. þingmenn til að lesa greinargerð með þessu frumvarpi, sérstaklega sögulegt yfirlit á bls. 14–15, sem einmitt lýsir því hversu ótrúlega langan tíma þetta hefur tekið, þrátt fyrir öll samtöl um að knýja fram jafnrétti kynjanna.

Þar er til að mynda rakið hversu lengi baráttan fyrir launajafnrétti kynjanna hefur staðið en það var árið 1911 sem konur fengu sama rétt til allra embætta og karlar og rétt til sömu launa fyrir slík störf. Það var árið 1911 og nú er árið 2020 og enn erum við ekki á þeim stað að við höfum náð fullu launajafnrétti. Það var árið 1958 sem Ísland fullgilti jafnlaunasamþykkt Alþjóðavinnumálastofnunar frá 1951. Þá skuldbatt Ísland sig til að tryggja jöfn laun til karla og kvenna fyrir jafn verðmæt störf. Þetta var 1958. Þá var ég ekki enn þá fædd og ekki heldur árið 1961 þegar sett voru sérstök lög um launajöfnuð kvenna og karla en þá var gefinn fimm ára tími til að innleiða ákvæði laganna um launajöfnuð. Laun kvenna áttu þá að hækka á þessum fimm árum til jafns við laun karla fyrir sömu störf í almennri verkavinnu, verksmiðjuvinnu og verslunar- og skrifstofuvinnu. Þótti málefnalegt að atvinnuvegirnir fengju ráðrúm til að samlagast nýjum viðhorfum í kjaramálum kvenna. En þrátt fyrir þennan langa innleiðingartíma komst launajöfnuður ekki á í reynd.

Árið 1963 fullgilti Ísland samþykkt nr. III um misrétti með tilliti til atvinnu og starfs sem gerð var á þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar 1958. Árið 1973 voru sett lög um Jafnlaunaráð og það starfaði á árunum 1973–1976. Það hafði hvorki starfsmenn né skrifstofuaðstöðu, þetta ágæta Jafnlaunaráð, enda vafalaust ekki verið álitið forgangsmál á þeim tíma en staðfesti þó tvær meginreglur, annars vegar um jöfn laun karla og kvenna fyrir jafn verðmæt og sambærileg störf og hins vegar að atvinnurekendum væri óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kyni. Síðan átti Jafnlaunaráð að tryggja framkvæmd laganna en lögin voru afnumin árið 1976 þegar sett voru fyrstu almennu lögin um jafnrétti kvenna og karla. Það var sem sagt 1976, það ár fæddist ég. Þá voru líka sett lög um að í skólum skyldi kennt um jafnrétti en eigi að síður tók það 35 ár, eða til ársins 2011, að setja hugtakið jafnrétti inn í aðalnámskrá. En þá var það gert einn af grunnþáttunum í aðalnámskrá, það þekki ég ágætlega hafandi verið menntamálaráðherra á þeim tíma. Allt hefur þetta tekið tíma með öllu þessu samtali og þeirri þróun sem rætt var um hér áðan.

Ég ætla ekki að halda áfram að rekja þessa sögu en það má segja að frá árinu 1976, frá því að lögin um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla voru sett, hafi töluverð framfaraskref verið stigin og raunar allan þennan tíma, allt frá árinu 1911. En eigi að síður er það svo, samkvæmt því sem fram hefur komið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, að enn erum við þjóðir heims, ekki Íslendingar sérstaklega, lengst frá því að ná heimsmarkmiði 5, sem er það heimsmarkmið sem snýst um jafnan rétt karla og kvenna. Þá rifjast upp það sem John Stuart Mill sagði á sínum tíma, að fátt misrétti væri rótgrónara en misrétti karla og kvenna. Það virðist sem Mill hafi haft allnokkuð til síns máls í þeim efnum eins og í svo mörgu öðru.

Í frumvarpi þessu er lagt til að sett verði ný heildarlög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Hér í upphafi er rétt að geta þess að frumvarpið er samið í víðtæku samráði við aðila á vinnumarkaði og við ýmis hagsmunasamtök og er lagt fram samhliða frumvarpi mínu um stjórnsýslu jafnréttismála. Það frumvarp, sem ég mæli fyrir hér á eftir, lýtur að skipulagi stjórnsýslu jafnréttismála á því sviði sem þetta frumvarp er. Einnig að því sem lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018, og lög um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, taka til. Tillögurnar ná meðal annars til starfa Jafnréttisstofu og kærunefndar jafnréttismála. Með þessu fyrirkomulagi er gerð skýrari grein fyrir hlutverki Jafnréttisstofu og kærunefndar jafnréttismála við framkvæmd lagabálkanna þriggja.

Tímabært þykir að setja ný heildarlög um jafnrétti kynjanna, ekki síst í ljósi þeirrar þróunar sem hefur orðið í jafnréttismálum frá því að gildandi lög voru sett árið 2008, en óhætt er að segja að þessi málaflokkur hafi sífellt öðlast meira vægi, bæði hér á landi sem og á heimsvísu. Verði frumvarpið samþykkt falla úr gildi lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008.

Herra forseti. Í frumvarpinu er það nýmæli lagt til að fjölþætt mismunun verði óheimil. Með því er átt við þegar einstaklingi er mismunað á grundvelli fleiri en einnar mismununarástæðu. Hefðbundin jafnréttislöggjöf einblínir á eina mismununarástæðu í einu, til að mynda kyn eða kynþátt eða fötlun eða kynhneigð, og hætta er á því að það smætti reynslu allra kvenna niður í reynslu eins hóps kvenna og það leiði til þess að erfitt sé að taka á fjölþættri mismunun. Þá má rifja upp hversu mismunandi og fjölbreytilegar frásagnirnar voru sem við heyrðum í kringum #églíka byltinguna, þar sem til að mynda sögur fatlaðra kvenna voru með öðrum hætti en sögur kvenna sem ekki eru með fötlun. Sögur kvenna af erlendum uppruna voru einnig ólíkar sögum kvenna sem fæddar eru og uppaldar hér á Íslandi. Rétt þykir að bregðast við slíkri mismunun með skýrum hætti, með sérstöku ákvæði eins og lagt er til í frumvarpi þessu. Það myndi m.a. auka vernd kvenna af erlendum uppruna og kvenna með fötlun.

Frumvarpið miðar m.a. að því líka, herra forseti, að tryggja fólki með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá jafna stöðu og jafnan rétt á við karla og konur. Þannig eiga öll almenn ákvæði frumvarpsins um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna einnig við um fólk með hlutlausa kynskráningu. Sömuleiðis ákvæði sem banna mismunun á grundvelli kyns. Frumvarpið mun því styðja við rétt fólks til að skilgreina sjálft kyn sitt, samanber lög um kynrænt sjálfræði, og jafnframt stuðla að aukinni vitund almennings um að hin hefðbundna kynjatvíhyggja er ekki algild því að til er hópur fólks sem ekki samsamar sig henni. Því er um að ræða mikla réttarbót fyrir fólk með hlutlausa kynskráningu.

Þess ber þó að geta að í frumvarpinu er einnig að finna ákvæði sem byggist á því að fjöldi kvenna og karla, sem við vorum að ræða áðan, á hverjum tíma sé svipaður og miða að því að jafna möguleika og áhrif þessara tveggja hópa í samfélaginu til þátttöku. Dæmi um þetta er ákvæði frumvarpsins þar sem mælt er fyrir um tiltekið lágmarkshlutfall kvenna og karla í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum hins opinbera. Í frumvarpinu er leitast við að halda slíkum ákvæðum óbreyttum en um leið reynt að tryggja stöðu einstaklinga með hlutlausa skráningu kyns með sérstökum ákvæðum.

Skiptar skoðanir geta verið á því hvort líta eigi svo á að heimildin til hlutlausrar kynskráningar þýði að kynin séu nú þrjú eða hvort kynin séu áfram tvö en að jafnframt geti einstaklingar kosið að tilheyra hvorugu þeirra. Hvað sem því líður er nauðsynlegt að jafnréttislög geri ráð fyrir þremur hópum fólks með mismunandi kynskráningu. Í því skyni að tryggja þetta er með hugtakinu ,,kyn“ í frumvarpi þessu átt við konur, karla og fólk með hlutlausa skráningu kyns. Í því skyni er jafnframt lagt til að heiti laganna verði lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna en eins og kunnugt er yfirskrift gildandi laga lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Herra forseti. Lagt er til að ákvæði um vinnumarkað og launajafnrétti eins og þau eru í gildandi lögum verði skipt niður í fleiri ákvæði með fyrirsögnum til skýringar. Gert er ráð fyrir að atvinnurekendur og stéttarfélög vinni markvisst að því að jafna stöðu kvenna og karla og gæta skuli að réttarstöðu fólks með hlutlausa kynskráningu á vinnumarkaði og að því skuli greidd jöfn laun og njóta sömu kjara fyrir sömu og jafnverðmæt störf. Í frumvarpinu eru ákvæði um laus störf, starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun sem og um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs og skyldu fyrirtækja og stofnana af tiltekinni stærðargráðu til að hafa gilda jafnréttisáætlun eða samþætta jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu, eins og verið hefur. Einnig er ákvæði um kynbundið ofbeldi, kynbundna áreitni og kynferðislega áreitni eins og verið hefur, sem og bann við mismunun í kjörum og bann við mismunun í starfi og við ráðningu sem og við uppsögn o.fl. vegna kæru eða leiðréttingarkröfu.

Lögð er til sú breyting frá gildandi lögum að ekki verði lengur gert að skilyrði að miða skuli við störf hjá sama atvinnurekanda í almenna ákvæðinu um launajafnrétti til að samræma ákvæðið efnislega við Evrópurétt og ýmsar breytingar eru lagðar til á ákvæðum gildandi laga um jafnlaunavottun. Meðal annars er lagt til að eftirlitshlutverk með jafnlaunavottun og jafnlaunastaðfestingu verði falið Jafnréttisstofu en í fjárlagafrumvarpi næsta árs er gert ráð fyrir að stofnunin verði styrkt til að mæta þeim verkefnum sem henni eru falin í frumvarpinu. Ég tel raunar mjög mikilvægt að við styðjum betur við þessa einu stofnun ríkisins á sviði jafnréttismála. Hún hefur alveg gríðarlega mikilvægu hlutverki að gegna, m.a. við eftirfylgd og framfylgni þessara laga.

Leitast er við að veita frekari leiðbeiningar um hvað felst í orðunum ,,að jafnaði á ársgrundvelli“ þegar verið er að meta í hvaða stærðarflokk fyrirtæki falla hvað varðar fjölda starfsfólks. Gert er ráð fyrir annarri útfærslu á svokallaðri staðfestingarleið. Samkvæmt henni fá minni fyrirtæki og stofnanir val um það hvort þau fá jafnlaunavottun að undangenginni úttekt vottunaraðila og fái jafnlaunamerki eða öðlist jafnlaunastaðfestingu sem Jafnréttisstofa veitir að undangengnum skilum á tilteknum gögnum sem sýna fram á með fullnægjandi hætti, að mati Jafnréttisstofu, að ekki sé um kynjamismunun að ræða þegar kemur að launaákvörðun innan fyrirtækisins eða stofnunarinnar. Lagt er til að ráðherra meti árangur jafnlaunavottunar og jafnlaunastaðfestingar á þriggja ára fresti.

Rétt er að árétta að jafnlaunavottun, eða eftir atvikum jafnlaunastaðfestingu, er ætlað að staðfesta að málefnaleg sjónarmið ráði við launaákvarðanir. Innleiðing jafnlaunakerfis samkvæmt jafnlaunastaðlinum eða jafnlaunastaðfesting kemur ekki í veg fyrir að einstaklingsbundnir þættir séu einnig metnir til launa. Áfram er mælt fyrir um tiltekið lágmarkshlutfall kvenna og karla í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum hins opinbera og vísa ég aftur í frumvarp forsætisnefndar sem hér var til umræðu áðan, sem ég fagna og tel fulla ástæðu til að nái fram að ganga.

Í frumvarpinu er fjallað um almennt bann við mismunun, bann við mismunun í tengslum við vörukaup og þjónustu eins og verið hefur sem og ákvæði um menntun og skólastarf. Einnig er fjallað um bann við mismunun hvað varðar auglýsingar og bann við afsali réttar. Í frumvarpinu er gerð tillaga að því að fækka fulltrúum í Jafnréttisráði til að tryggja skilvirkni og markvissara starf þannig að ráðið verði skipað sex fulltrúum í stað ellefu. Einnig er lögð til sú breyting að miðað verði við að boða til jafnréttisþings annað hvert ár í stað innan árs frá alþingiskosningum til að tryggja að þingið verði haldið með reglubundnum hætti óháð alþingiskosningum hverju sinni. Gert er ráð fyrir, eins og verið hefur, að ráðherra leggi fram tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun um jafnrétti kynjanna þar sem lagðar eru til aðgerðir sem ætlað er að koma áherslumálum ráðherra á þessu sviði til framkvæmda og stjórnvöldum falið að framkvæma, eftir atvikum í samvinnu við aðra aðila. Jafnframt er jafnréttisfulltrúum áfram ætlað að fjalla um og hafa eftirlit með jafnréttisstarfi á málefnasviði viðkomandi ráðuneytis og stofnana þess. Þá er mælt fyrir um mikilvægi þess að greining tölfræðiupplýsinga eftir kynjum sé sjálfsagður hluti opinberrar hagskýrslugerðar þar sem við á. Kveðið er á um það nýmæli að opinberir aðilar skuli leitast við að greina á milli kynja við alla tölfræðivinnslu nema sérstakar ástæður, svo sem persónuverndarhagsmunir, mæli gegn því og áfram er mælt fyrir um skyldu stjórnvalda að samþætta kynja- og jafnréttissjónarmið inn í daglegt starf allra ráðuneyta. Kveðið er á um að sá sem með saknæmum og ólögmætum hætti brýtur gegn ákvæðum laganna verði skaðabótaskyldur vegna fjártjóns og miska samkvæmt almennum reglum og í samræmi við kröfur um skýrleika refsiheimilda er lagt til að þau ákvæði laganna sem varðað geta sektum verði talin sérstaklega upp í ákvæðinu sem mælir fyrir um sektir. Í ljósi þeirrar þróunar sem hefur orðið í jafnréttismálum síðan gildandi lög voru sett er lagt til að færa orðalag jafnréttislaga til nútímalegra horfs og leitast við að hafa orðnotkun ekki kynjaða.

Að lokum eru lagðar til breytingar á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sem þykja nauðsynlegar til samræmis við lög um kynrænt sjálfræði og til samræmis við framangreint frumvarp til nýrra laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.

Herra forseti. Eins og ég fór yfir í upphafi ræðu minnar er jafnrétti kynjanna svo sannarlega ekki gæluverkefni, það á ekki heima úti í horni meðan rætt er um „mikilvægari mál“. Við erum hér að tala um grundvallaratriði í okkar samfélagsgerð. Þessu frumvarpi, þessari heildarendurskoðun á lögunum, er ætlað eins og fyrri lögum að vinna gegn mismunun og viðhalda og tryggja jafna meðferð fólks óháð kyni, sem og að stuðla að launajafnrétti kynjanna hér á landi sem því miður hefur enn ekki verið náð.

Ég ætla ekki að eyða lengri tíma í að gera grein fyrir meginatriðum frumvarpsins enda eru fleiri mál á dagskrá, m.a. um stjórnsýslu jafnréttismála. Ég legg til að frumvarpinu verði að þessari umræðu lokinni vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.