151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

jöfn staða og jafn réttur kynjanna.

14. mál
[15:13]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á að fagna því að þetta mál sé komið fram og raunar þessi röð mála sem eru á dagskrá hér í dag. Lagaumhverfið hefur svo sannarlega ekki náð að fylgja eftir þeirri þróun sem orðið hefur í samfélaginu á síðustu árum. Þetta eru því allt saman mjög tímabærar breytingar. Það sem mig langar að nefna hér í fyrra andsvari mínu er fjölþætt mismunun. Með þessu jafnréttisfrumvarpi er stigið mjög mikilvægt skref, að líta ekki bara til karla og kvenna heldur til allra kynja og annarra mismununarbreyta.

Mig langar í fyrsta lagi að velta því upp með ráðherranum hvort ekki þurfi að flétta fjölþættu mismununina aðeins betur inn í frumvarpið af því að hún virkar dálítið neðan máls. Hún virkar eins og henni hafi verið bætt við gamalt frumvarp. Það er svo sem eðlilegt þegar við erum að fara úr gömlu kerfi í nýtt en það vantar, finnst mér, að flétta þetta betur inn í.

Í öðru lagi hvort það þurfi ekki jafnvel að ræða sérstaklega um ákveðna hópa eða einhvern veginn að taka á því hvernig við náum t.d. til fatlaðs fólks eða innflytjenda sem eru hópar sem þarf kannski að leita beinlínis til frekar en að reikna með að það fólk þekki rétt sinn og geti sótt sér hann. Það þarf kannski að fara út í mörkina og hjálpa fólki að sækja sinn rétt.

Og fyrst við erum að tala um þessa tilteknu hópa langar mig að spyrja út í hvaða samráð hafi verið haft við þá hópa og þá kannski sérstaklega við fatlað fólk þar sem skylda um samráð hvílir á stjórnvöldum gagnvart þeim hópi umfram þá almennu skyldu sem móralskt hvílir á stjórnvöldum, að breyta lögum ekki án þess að hafa samráð við það fólk sem þau snerta.