151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

jöfn staða og jafn réttur kynjanna.

14. mál
[15:18]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka svarið og langar í síðara andsvari mínu einmitt að ræða sérstaklega þessa útvíkkun á kynjahugtakinu sem við erum að vinna með hér og leiðir m.a. af lögum um kynrænt sjálfræði sem við samþykktum nýlega. Eðlilega er tvíhyggjusamhengið dálítið ríkt í þessu frumvarpi. Það er bara sá valdastrúktúr sem hefur byggst upp í samfélaginu í aldanna rás og við erum að bregðast við því. Það samhengi er því gagnlegt til að skilja þá samfélagsmynd sem við erum að reyna að breyta.

Hins vegar finnst mér, vegna þess að við erum að eiga við nýjan veruleika, eins og hlutlausri kynskráningu hafi verið bætt við nánast eins og eftir á. Mig langar þar sérstaklega að nefna 28. gr., um þátttöku í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum hins opinbera, þar sem skipan fólks með kynhlutlausa skráningu kemur sem síðasta málsgrein og passar ekki alveg inn í greinina. Hefði ekki þurft að semja þessa grein frá grunni þannig að hún næði til allra kynja? Svo stakk það mig dálítið þegar ég las í greinargerð að skiptar skoðanir geti verið á því hvort líta eigi svo á að heimildir til hlutlausrar kynskráningar þýði að kynin séu nú þrjú eða hvort þau séu áfram tvö. Ég man ekki betur en að við höfum einmitt afgreitt þetta með lögum um kynrænt sjálfræði. Þar stendur í greinargerð, frá þessum sama hæstv. ráðherra, að í gamla umhverfinu hafi verið lagt upp með að kynin gætu einungis verið tvö en það sé svo sannarlega fjarri lagi. Þetta voru orð forsætisráðherra (Forseti hringir.) á þeim tíma og ég myndi gjarnan vilja sjá (Forseti hringir.) nefndina kljást við þetta mál þannig að það endurspeglaði (Forseti hringir.) þá stemningu meira en það að önnur kyn en karlar og konur séu einhvern veginn viðbygging við grunnlögin.