151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

stjórnsýsla jafnréttismála.

15. mál
[15:31]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Þetta tengist beinlínis lokaorðum síðustu ræðu minnar. Hér mæli ég fyrir frumvarpi til laga um stjórnsýslu jafnréttismála og legg það fram samhliða frumvarpinu sem ég mælti fyrir áðan um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Umfjöllunarefni þessa frumvarps er sambærilegt við II. kafla gildandi jafnréttislaga sem ber yfirskriftina Stjórnsýsla. Lagt er til að frumvarp þetta gildi um skipulag á þeirri stjórnsýslu sem lagt er til að gildi um jafnréttismál og að undir þessa stjórnsýslu heyri þau heildarlög sem ég mælti fyrir áðan og síðan einnig lögin um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018, og lög um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018.

Með tilkomu framangreindra laga frá árinu 2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði og laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna var Jafnréttisstofu og kærunefnd jafnréttismála falið það hlutverk að fara með jafnréttismál í víðari skilningi en áður hafði tíðkast hér á landi. Það tengist auðvitað umræðu sem hefur farið fram víða í nágrannalöndum okkar um útvíkkun jafnréttishugtaksins og hversu langt við eigum að ganga í þeirri útvíkkun. Eins og ég nefndi áðan var það mín niðurstaða að það væri mikilvægt að hafa hér áfram lög um jafna meðferð kynja enda fjallað mjög ítarlega um ýmsa aðra þætti í þessum tveimur lagabálkum en hins vegar er unnið með það sem lýtur að fjölþættri mismunun í frumvarpinu um jafna stöðu kynja.

Eftir að Alþingi samþykkti þessi lög frá árinu 2018 fengu Jafnréttisstofa og kærunefnd jafnréttismála það hlutverk að fjalla um jafnrétti kynja og jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna innan sem utan vinnumarkaðar, sem og meginregluna um jafna meðferð á vinnumarkaði, óháð trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu. Jafnframt var ráðherra jafnréttismála falin yfirstjórn á sviði jafnréttismála þar sem átt var við meginregluna um jafna meðferð í víðari skilningi, samanber þá upptalningu sem ég fór með hér að framan. Ekki eru lagðar til breytingar á því fyrirkomulagi í frumvarpi þessu. Hins vegar er lögð til sú breyting að fjallað verði um skipulag stjórnsýslu jafnréttismála í einum lögum en ekki inni í lögum um jafnrétti kynjanna. Það er eðlilegt framhald af fyrrgreindum breytingum, m.a. til að tryggja heildaryfirsýn, auka skýrleika og gera framkvæmd laganna skilvirkari.

Virðulegi forseti. Fer ég þá nánar yfir ákvæði þessa frumvarps. Eins og verið hefur er gert ráð fyrir að ráðherra jafnréttismála fari með yfirstjórn þessara laga nema annars sé sérstaklega getið og Jafnréttisstofa sem hér var nefnd áðan verði áfram sérstök stofnun sem heyri undir yfirstjórn ráðherra jafnréttismála og annist stjórnsýslu á því sviði sem framangreind löggjöf tekur til. Lögð er til sú breyting frá gildandi lögum að ákvæðum um Jafnréttisstofu verði skipt niður í fleiri ákvæði. Eftirlitsþáttur stofnunarinnar við framkvæmd laganna hefur verið gerður skýrari með tillögum í frumvarpinu, m.a. með álagningu dagsekta í nánar tilgreindum tilvikum. Raunar voru Jafnréttisstofu veittar heimildir til álagningar dagsekta í tilteknum tilvikum í gildandi jafnréttislögum en síðan var aukið við þá heimild með lögum nr. 56/2017, um jafnlaunavottun. Því er fjallað um dagsektir á fleiri en einum stað í gildandi lögum, eftir því hvernig brot er um að ræða. Er það til þess fallið að valda misskilningi og því er lagt til að framangreindar málsgreinar verði sérákvæði og fái fyrirsögnina Dagsektir.

Herra forseti. Gert er ráð fyrir að þeim sem telja á sér brotið á grundvelli ákvæða framangreindrar löggjafar á sviði jafnréttismála verði áfram gert kleift að kæra ætluð brot til sjálfstæðrar kærunefndar, kærunefndar jafnréttismála. Í ljósi þess að kærunefnd jafnréttismála úrskurðar ekki eingöngu um mismunun á grundvelli kyns þykir rétt að auka við kröfuna um sérþekkingu innan kærunefndarinnar á jafnréttismálum. Því er lagt til í frumvarpi þessu að a.m.k. tveir nefndarmenn, þar á meðal formaður, skuli hafa sérþekkingu á sviði jafnréttismála. Enn fremur er lagt til að fulltrúar kærunefndarinnar verði ekki skipaðir til sama tíma þannig að tryggt sé eins og unnt er að ávallt verði til staðar tiltekin þekking hjá skipuðum fulltrúum í kærunefndinni þó að skipt sé um fulltrúa.

Lagt er til í frumvarpi þessu það nýmæli að kærunefnd jafnréttismála verði veitt skýr heimild til að beina þeim fyrirmælum til hins brotlega að gera tilteknar ráðstafanir til að bæta úr þegar það á við. Úrskurðirnir fela áfram í sér bindandi niðurstöðu fyrir málsaðila um hvort þau lög sem heyra undir kærunefndina hafi verið brotin en lagt er til að bætt verði við með skýrum hætti að þegar við á geti kærunefndin beint þeim fyrirmælum til hins brotlega að gera viðeigandi ráðstafanir til að bæta úr þannig að hann geti ekki mætt úrskurði með algjöru athafnaleysi. Þá verður Jafnréttisstofu betur gert kleift að sinna því hlutverki sínu sem hún hefur samkvæmt gildandi lögum, sem er að fylgja úrskurðum kærunefndarinnar eftir, að viðlögðum dagsektum. Áfram er gert ráð fyrir því að hafi úrskurður kærunefndar jafnréttismála verið kæranda í hag en gagnaðili ekki viljað una honum og höfðað þá mál til ógildingar á úrskurðinum fyrir dómstólum fái kærandi greiddan málskostnað úr ríkissjóði fyrir héraðsdómi, Landsrétti og Hæstarétti eftir því sem við á. Lagt er til það nýmæli að við slíka málsókn skuli kærunefnd jafnréttismála jafnframt stefnt til varnar í málinu. Það er gert á þeim grunni að enginn þekkir betur á hvaða forsendum úrskurður nefndarinnar er byggður en nefndin sjálf og því rétt að hún sjái um að færa fram málsástæður og lagarök fyrir því að úrskurðurinn sé löglegur og réttur en ekki kærandi einn eins og núverandi skipan mála er hagað. Rétt er að taka fram að eftir sem áður hefur kærandi í slíkum dómsmálum kost á að koma að öllum viðhorfum sínum varðandi málið þar sem hann telst einnig til varnaraðila málsins. Ég vek athygli á því að þetta fyrirkomulag, verði það að lögum, er þá sambærilegt við það sem tíðkast til að mynda í Danmörku þar sem viðkomandi úrskurðarnefnd er einnig hluti af dómsmáli, komi til þess.

Þá er lagt til það nýmæli að ef kærunefnd jafnréttismála hefur til umfjöllunar mál sem varðar ráðningu, setningu eða skipun í starf geti hún aflað frekari upplýsinga um málið frá þeim einstaklingi sem hlaut starfið, telji hún ástæðu til, í því skyni að upplýsa málið nægjanlega í samræmi við stjórnsýslulög. Um það hefur verið fjallað, þó ekki alveg með einlitum hætti, í bæði í dómum og álitum umboðsmanns Alþingis og tel ég að þarna sé farin sú leið að heimildin komi til móts við þær ábendingar sem umboðsmaður hefur sett fram. Um þetta hefur líka verið fjallað fyrir dómstólum og eins og ég segi ekki alveg einlitar niðurstöður í þeim efnum. Í frumvarpinu er kveðið á um skyldu kærunefndar jafnréttismála til að birta úrskurði sína og er það í samræmi við gildandi lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Lagt er til það nýmæli að bætt verði við ákvæði þar sem kveðið er á um skyldu nefndarinnar til að skila ráðherra skýrslu um störf sín, helstu niðurstöður og leiðbeinandi reglur sem leiða má af úrskurðum hennar en slíkt ákvæði myndi auka gagnsæi og auðvelda fólki að fylgjast með framkvæmd og túlkun þeirra laga sem heyra undir kærunefnd jafnréttismála.

Herra forseti. Áfram er gert ráð fyrir að ráðherra leggi fram skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála en sú breyting er lögð til að ráðherra geri það einu sinni á kjörtímabili en ekki á jafnréttisþingi sem haldið er á tveggja ára fresti og í henni komi m.a. fram mat á stöðu og árangri verkefna í gildandi þingsályktun um framkvæmdaáætlun í kynjajafnréttismálum. Lögð er til sú breyting að jafnréttisáætlun hjá sveitarfélögum sem tekur til jafnréttis kynjanna eingöngu verði nú áætlun um að gæta þurfi að fleiri mismununarástæðum en kyni, þ.e. einnig kynþætti, fötlun, kynhneigð og fleiru. Ekki verður lengur gert ráð fyrir skipan sérstakrar jafnréttisnefndar sveitarfélaga heldur þess í stað að sveitarstjórn feli byggðarráði eða annarri fastanefnd sveitarfélags að fara með jafnréttismál innan sveitarfélagsins og hafa með stuðningi starfsfólks umsjón með undirbúningi áætlunar og framkvæmd hennar.

Að lokum eru lagðar til nauðsynlegar breytingar á lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði annars vegar og jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna hins vegar í því skyni að tryggja samræmi milli þeirra laga og frumvarps þessa, sem og til samræmis við frumvarp til nýrra laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.

Herra forseti. Verði frumvarpið lögfest í núverandi mynd er ekki ástæða til að ætla að það hafi bein áhrif á útgjöld ríkissjóðs umfram það sem leiðir af framkvæmd gildandi laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, laga um jafna meðferð á vinnumarkaði og laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna. Ætlunin er að stuðla að öflugri stjórnsýslu málaflokksins og byggja upp víðtækari þekkingu á jafnréttismálum innan stjórnsýslunnar. Þá er þess vænst, eins og hér kom fram áðan, að þessi styrking leiði til aukinnar réttarverndar fyrir fólk sem telur sér mismunað á grundvelli kyns, kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðunar, aldurs, fötlunar, skertrar starfsgetu, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar og þar með aukins jafnréttis í samfélaginu.

Herra forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginatriðum frumvarpsins og legg til að því verði vísað að lokinni þessari umræðu til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.