151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

stjórnsýsla jafnréttismála.

15. mál
[15:44]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. um þingmanni fyrir. Ég vil rifja upp þá dóma sem hafa fallið vegna úrskurða kærunefndar jafnréttismála og svo það sé bara skýrt hefur kærunefnd jafnréttismála ekki vald til að hnekkja ráðningu, setningu eða skipan sem atvinnurekandi hefur tekið ákvörðun um eða hrundið í framkvæmd. Rifja má dóm Hæstaréttar upp frá árinu 2017 þar sem fram kom að það hafi ekki áhrif á gildi úrskurðar kærunefndar jafnréttismála sem umboðsmaður hafði áður veitt álit um að mikilvægt væri að gefa einstaklingnum sem fær þá starfið kost á að láta málið til sín taka. Dómur Hæstaréttar var að það hefði ekki verið nauðsynlegt þar sem nefndin hefði hvort eð er ekki vald til að hnekkja þeirri ráðningu sem veitingarvaldshafinn hefði tekið ákvörðun um og hrundið í framkvæmd. Hins vegar er komið til móts við þau sjónarmið sem finna má í áliti umboðsmanns að kærunefndin fær heimild til að leita upplýsinga hjá þeim aðila sem fær starfið þrátt fyrir að engu sé breytt um að kærunefndin hafi ekki möguleika á að hnekkja ráðningu, bara svo þetta sé algerlega skýrt.

Hv. þingmaður spyr svo hvort að kærunefndin eigi að fara ofan í það matsferli sem fer fram. Þetta tel ég bara ágætt að hv. allsherjar- og menntamálanefnd ræði í yfirferð sinni yfir frumvarpið. Kærunefnd jafnréttismála hefur bent á það að sjaldnast sé konum og körlum mismunað (Forseti hringir.) með því að í rökstuðningi standi: Ja, hann var ráðinn því að hann var kall — heldur þurfi að leita eftir undirliggjandi þáttum í mati veitingarvaldshafa.