151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

stjórnsýsla jafnréttismála.

15. mál
[15:46]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt, þetta er sjaldnast svo kristalskýrt og eðli máls samkvæmt þá er það þannig að auðvitað þarf að leggja mat á allar þær forsendur sem liggja til grundvallar ákvörðun veitingarvaldshafa, eða hvað við köllum aðila sem ræður í starfið. Það þarf auðvitað að meta það hvort allar forsendur sem lagðar eru til grundvallar séu málefnalegar og hvort þær með einhverjum hætti snerta gildissvið jafnréttislaga. En svo geta verið fjöldamörg önnur matskennd ákvæði sem geta orkað tvímælis í sambandi við ráðningu í störf þegar verið er að vega saman ákveðna hluti eins og nám á einhverju tilteknu sviði eða starfsreynslu á einhverju sviði, hvort á að vega þyngra, námið eða starfsreynslan, bara svo dæmi sé tekið. Þar geta verið alls konar matskennd ákvæði sem koma upp, hvað eigum við að segja, sem koma kynferði umsækjendanna ekki neitt við en geta engu að síður verið umdeilanleg. En hvað sem þessu líður, tilgangur minn með því að koma hingað upp var fyrst og fremst að vekja athygli á því að ég teldi að þetta væru atriði sem við þyrftum að fara yfir í störfum nefndarinnar og ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin. En við munum þurfa að ræða þessa þætti og þessa útfærslu svolítið í nefndinni, ekki síst í ljósi þess að þeir þættir sem ég hef verið að víkja hér að hafa verið umdeildir og tekist hefur verið á um þá bæði fyrir dómstólum og í álitum umboðsmanns á undanförnum árum.