151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

kynrænt sjálfræði.

20. mál
[15:52]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég hefði kannski átt að fá að ræða þessi mál saman því að þau eru öll náskyld en mér láðist að óska eftir því. Þetta er sem sagt fyrsta af þremur frumvörpum, mjög einfalt að gerð en er 20. mál um breytingu á lögum um kynrænt sjálfræði, varðar breytt aldursviðmið. Frumvarpið er unnið í samstarfi forsætisráðuneytisins og starfshóps sem var skipaður samkvæmt bráðabirgðaákvæði II í lögum um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019. Með ákvæðinu var starfshópnum m.a. falið að endurskoða aldursviðmið laganna til lækkunar vegna réttar til að breyta skráningu kyns og skyldi hann hafa um það samstarf við Barnaverndarstofu, umboðsmann barna og hagsmunasamtök hinsegin fólks. Þetta var að frumkvæði meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar. Þegar hún lauk umfjöllun sinni um lögin um kynrænt sjálfræði var gerð sú breyting á frumvarpinu, við meðferð málsins, að aldursviðmið var hækkað úr 15 árum í 18 ár. Í nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar var fjallað um þá breytingu og bent á að mikilvægt væri að vinna hana betur, skoða þetta út í hörgul og eiga um það ríkt samráð við alla aðila. Þessi starfshópur var starfandi frá haustinu 2019 fram í ágúst 2020. Hann skilaði skýrslu í september sem birt hefur verið á vef forsætisráðuneytisins og þar er lagt til að horfið verði til upprunalegs ákvæðis, þ.e. að rétturinn miðist við 15 ára aldur í stað 18 ára til að breyta opinberri skráningu kyns og um leið nafni. Þar með hefur hver einstaklingur sem náð hefur þeim aldri rétt til að breyta skráningu sinni í þjóðskrá hvað varðar kyn en hvað varðar börn yngri en 15 ára er gert ráð fyrir að þau geti með fulltingi forsjáraðila sinna breytt opinberri skráningu kyns síns.

Við mat á því, sem eðlilega var ákveðið að gefa rýmri tíma til umfjöllunar, við hvaða aldur eigi að binda sjálfstæðan rétt barna til að breyta skráningu kyns, vegast einkum á sjónarmið um rétt barna til verndar annars vegar og sjónarmið um rétt barna til að hafa áhrif á ákvarðanir sem varða eigið líf hins vegar. Þegar um þetta er fjallað er mikilvægt að hafa að leiðarljósi meginreglu barnaréttar um að það sem barni er fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess, samanber ákvæði barnalaga, nr. 76/2003. Jafnframt er nauðsynlegt að hafa í huga að kynvitund er þáttur sjálfsmyndar einstaklingsins og nýtur verndar mannréttindaákvæða sem lúta að friðhelgi einkalífs.

Herra forseti. Unglingar sem upplifa kynmisræmi eru afar viðkvæmur hópur. Í áðurnefndri skýrslu starfshópsins er vísað til erlendra rannsókna sem sýna að mörg þeirra verða fyrir áreitni og ofbeldi, bæði líkamlegu og andlegu, niðurlægingu og mismunun. Þetta getur orsakað óöryggi, félagslega einangrun, vanlíðan og geðræn vandamál enda er tíðni þunglyndis, kvíða, átraskana, sjálfskaða og sjálfsvíga hærri hjá þessum hópi en öðrum hópum unglinga.

Sjálfsmynd og sjálfsmat eru mikilvægir þættir í andlegri heilsu okkar og því hvernig við mátum okkur inn í samfélag okkar. Öllum unglingum er það mikilvægt að á þau sé hlustað og að líðan þeirra og sjálfsmynd sé virt og skipti máli. Þetta er mjög brýnt þegar trans unglingar eiga í hlut. Í sænsku skýrslunni Juridiskt kön och medicinsk könskorrigering frá 2014 kemur fram að flestir rannsakendur séu sammála um að það hafi mikil áhrif á geðheilsu trans fólks að hvaða marki kynvitund þess sé virt, hvort það geti tjáð hana í venjulegum félagslegum aðstæðum og hvort það hafi stuðning þeirra sem standa því næst. Stuðningur bæði fjölskyldu og samfélags er nauðsynlegur til að trans unglingar geti þroskað kynvitund sína án þess að verða fyrir fordómum, áreitni og útskúfun. Þetta snýst í raun og veru um að þessi hópur unglinga geti mátað sig við samfélagið og upplifað það að þeirra kynvitund sé jafn mikilvæg og annarra unglinga sem ekki líður með svona.

Herra forseti. Ég nefndi það áðan að meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar hefði talið rétt að gefa þessu rýmri skoðun. Það er ekki óeðlilegt í ljósi þess að samkvæmt ákvæðum lögræðislaga verða einstaklingar lögráða 18 ára. Foreldrar barns eða þau sem koma í foreldra stað fara með lögráð þess fram að 18 ára aldri og nefnast þau lögráð forsjá. Um forsjá fer samkvæmt ákvæðum barnalaga og barnaverndarlaga. Barn nýtur þannig forsjár foreldra eða forsjáraðila til 18 ára aldurs.

Í ákvæðum barnalaga, nr. 76/2003, er mælt fyrir um réttindi barna og segir þar að barn eigi rétt á að lifa, þroskast og njóta verndar, umönnunar og annarra réttinda í samræmi við aldur og þroska og án mismununar af nokkru tagi. Óheimilt er að beita barn hvers kyns ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi. Einnig er þar sett fram meginreglan um að það sem barni er fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess og barn eigi rétt á að láta skoðanir sínar í ljós í öllum málum sem það varða og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur og þroska. Enn fremur segir að foreldrum beri að hafa samráð við barn sitt áður en málefnum þess er ráðið til lykta eftir því sem aldur og þroski barnsins gefur tilefni til. Skal afstaða barns fá aukið vægi eftir því sem barnið eldist og þroskast. Framangreind ákvæði 1. gr. barnalaga endurspegla nokkrar meginreglur samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem var lögfestur hér á landi með lögum nr. 19/2013.

Skylda forsjáraðila til að hafa samráð við barn sitt um ákvarðanir sem varða líf þess helst í hendur við rétt barnsins til að hafa áhrif á slíkar ákvarðanir og tjá sig um þær. Það þýðir að forræði og ákvörðunarvald forsjáraðila fer minnkandi með aldri barna og auknum þroska þeirra. Sú skylda forsjáraðila og annarra sem taka ákvarðanir um hagi og líf barna að gera það sem barni er fyrir bestu krefst þess að hlustað sé á skoðanir barna og reynslu. Þegar vægi sjónarmiða barna er metið þarf að líta til aldurs þeirra og þroska og þess hvort þau gera sér grein fyrir afleiðingum ákvörðunarinnar sem skal taka.

Herra forseti. Niðurstaða starfshópsins sem vann að málinu var að unglingar hafi við 15 ára aldur almennt nægan þroska til að taka sjálf ákvörðun um breytingu á skráningu kyns síns og geri sér grein fyrir afleiðingum þeirrar ákvörðunar. Niðurstaðan byggir á heildstæðu mati á þeim gögnum og upplýsingum sem hópurinn aflaði, svo og samráði. Í því sambandi leggur starfshópurinn annars vegar áherslu á að kynvitund sé persónuleg upplifun einstaklings af sjálfum sér og að því sé afar erfitt fyrir forsjáraðila að sannreyna hvort upplifun barnsins af kynmisræmi sé „rétt“. Hins vegar vísar starfshópurinn til þess að ákvörðunin sé afturkræf og einföld í framkvæmd en bendir jafnframt á mikilvægi þess að auðvelt verði fyrir börn að „snúa til baka“ ef þau komast að þeirri niðurstöðu að þau tilheyri þrátt fyrir allt því kyni sem þeim var úthlutað við fæðingu. Með því að heimila unglingum frá 15 ára aldri að ákveða sjálf hvert skráð kyn þeirra skuli vera sýni samfélagið þeim traust og viðurkenni upplifun þeirra um sjálf sig. Þetta geti haft mikla þýðingu fyrir líðan unglinga sem upplifa kynmisræmi og jafnframt gefið þeim tækifæri til að kanna betur kynvitund sína áður en til frekari meðferðar kemur. Telur starfshópurinn að mikilvægi þess að kynskráningarbreyting standi unglingum til boða réttlæti það að takmarka að þessu leyti forsjárvald foreldra eða forsjáraðila.

Starfshópurinn lýsir í skýrslu sinni yfir skilningi á stöðu barna með alvarlegar geðraskanir og fjölþættan vanda en lítur svo á að vega verði og meta hugsanlega áhættu gagnvart þessum börnum í ljósi þess ávinnings sem hlýst af því að rýmka rétt trans barna og unglinga til að taka sjálf ákvörðun um breytingu á kynskráningu. Það er niðurstaða starfshópsins að ekki hafi með skýrum hætti verið rökstutt að afleiðingar lækkunar aldursviðmiðsins séu svo alvarlegar fyrir þessi börn að það réttlæti að horfið sé frá henni. Bendir starfshópurinn í því sambandi á að lækkun aldursviðmiðsins feli í sér ótvíræða réttarbót fyrir þorra trans unglinga.

Frumvarpið byggist á niðurstöðu og tillögum starfshópsins. Telja verður ákjósanlegt að einstaklingar öðlist rétt til að breyta skráningu kyns og nafni við 15 ára aldur en flestir unglingar hefja framhaldsskólagöngu á þessum aldri. Þarna eru því tímamót í lífi unglingsins og mikilvægt að geta hafið nám í nýjum skóla með rétta skráningu á kyni og nafni sem samræmist kynvitund viðkomandi.

Þannig er áhugavert að skoða að í íslenskum lögum eru ýmis réttindi og skyldur tengd 15 ára aldri, t.d. er barn sjálfstæður aðili að barnaverndarmáli við 15 ára aldur. Þá er barn sakhæft við 15 ára aldur, auk þess sem 15 ár er kynferðislegur lágmarksaldur. Enn fremur fá börn aukin réttindi samkvæmt umferðarlögum við 15 ára aldur.

Frú forseti. Í frumvarpinu er einnig lagt til að takmarkanir 7. gr. laga um kynrænt sjálfræði, sem fela í sér að breyting á skráningu kyns og samhliða nafnbreyting sé aðeins heimil einu sinni nema sérstakar ástæður séu til annars, gildi ekki um einstaklinga yngri en 18 ára. Kynvitund hvers og eins er í mótun allt fram á fullorðinsár. Sum börn hafa lifað í leiðréttu kyni frá unga aldri en önnur upplifa kynmisræmi ekki fyrr en á unglingsárum og eru leitandi og óviss um kyn sitt. Það er því ekki ólíklegt að einhverjir einstaklingar muni vilja breyta aftur kynskráningu sinni ef þeir komast að því að kynvitund þeirra samrýmist eftir allt því kyni sem þeim var úthlutað við fæðingu. Mikilvægt er að löggjöf taki mið af þessu og setji unglingum í þessari stöðu ekki ónauðsynlegar hindranir. Því er lagt til að bætt verði við nýrri málsgrein í framangreint ákvæði laga um kynrænt sjálfræði þar sem mælt verði fyrir um að einstaklingar undir 18 ára aldri séu undanþegnir þeim takmörkunum sem felast í 1. mgr. greinarinnar.

Auk þessara breytinga eru lagðar til breytingar á mannanafnalögum til að gæta samræmis milli þeirra og ákvæða frumvarpsins.

Frumvarpið varðar framkvæmd skráningar upplýsinga í þjóðskrá en ekki verður séð að það hafi neikvæð eða íþyngjandi áhrif á stjórnsýslu. Mögulegt er að umsóknum um breytingu á skráðu kyni og samhliða nafni muni fjölga en ætla má að áhrif þess á starfsemi þjóðskrár verði óveruleg. Einstaklingar greiða sjálfir fyrir breytta skráningu á kyni og nafnbreytingu auk nýrra skilríkja. Ekki verður því séð að frumvarpið muni hafa neikvæð áhrif á fjárhag ríkissjóðs.

Frú forseti. Samþykkt frumvarpsins yrði réttarbót fyrir unglinga sem upplifa kynmisræmi. Sýnt hefur verið fram á það með rannsóknum að það skipti sköpum fyrir líðan og geðheilsu trans unglinga að sjálfsmynd þeirra sé viðurkennd af aðstandendum og vinum og samfélaginu öllu og þau mæti þannig skilningi í félagslegum samskiptum sínum við aðra. Mikilvægi þess að trans unglingar geti tjáð kynvitund sína í venjulegum félagslegum aðstæðum hefur mikil áhrif á líðan þeirra. Ein forsenda þessa er að samfélagið viðurkenni rétt þeirra til að ákveða sjálf kyn sitt. Verði frumvarpið að lögum ætti það að stuðla að bættri líðan trans unglinga á Íslandi.

Forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar að lokinni 1. umr.