151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

mannanöfn.

161. mál
[17:01]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni. Þetta er svo sannarlega rótgróin og afar mikilvæg og merkileg hefð sem við eigum í okkar mannanafnahefð og við verðum að standa vörð um hana. Það er nú einu sinni þannig að frelsið er svo sannarlega gott og gilt, en hér er bara um svo róttækar breytingar að ræða að þetta vegur að íslenskri mannanafnahefð. Okkar helsti sérfræðingur í þessum málaflokki hefur tjáð mér það, eins og ég nefndi áðan, og maður á svo sannarlega að taka mark á því fólki sem hefur eytt allri sinni ævi í þennan málaflokk. Ef við hlustum ekki á þá sem best til þekkja í þeim efnum þá finnst mér við vera orðin illa stödd.

Ég ætla svo sannarlega að vona að nefndin fari vandlega yfir það og spyrji: Er þetta það sem almenningur vill á Íslandi? Ég efast stórlega um það, hv. þingmaður, að svo sé. Hæstv. dómsmálaráðherra hefur nefnt það að hún safni einhverjum sögum um einstaklinga sem vilja alls ekki láta nefna sig eftir föður eða móður. Ég tel að þetta sé bara mikill minni hluti þjóðarinnar og ég tel þetta ekki vera það mikilvægt innlegg inn í þetta að við eigum hér að umturna kerfi, mannanafnahefð í landinu sem er svo einstök að hún hefur vakið og vekur athygli ávallt úti um allan heim.

Ég segi bara eins og er, frú forseti, mér finnst það vera skylda Sjálfstæðisflokksins að standa vörð um þessa hefð en ekki fara þessa leið sem nú er farin með því að umturna kerfi sem er gríðarlegt menningarverðmæti fyrir okkur sem þjóð.