151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

íslensk landshöfuðlén.

9. mál
[18:16]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna sem er kannski óbein hvað varðar túlkun laga á þessu sviði, hvort atbeina dómsvalds þurfi, eins og ég fór yfir, þegar kemur að því að loka og læsa, leggja hald á eða eitthvað slíkt. Það að gagnrýna þá sem sjálfsagt er að gagnrýna er kannski ekki endilega það sama og að hvetja til lögbrota, ég tek undir það með hv. þingmanni. Það er hægt að gagnrýna á málefnalegan hátt. Það getur verið að munur sé á okkur hv. þingmanni hvað það varðar en ég hef hins vegar ekki þá reynslu af honum. Ég hef því ekki stórar áhyggjur af þessu. En í einhverjum mjög sérstökum dæmum, sem hv. þingmaður getur vissulega tiltekið, þar sem sjónarmið hans er að lög á Íslandi séu röng og hann sé að berjast fyrir leiðréttingu þeirra, eru það samt lög á Íslandi. Ég bendi á að það þarf atbeina dómstóla til að ganga svo langt, enda er mjög mikilvægt að átta sig á því að það er verulega íþyngjandi að grípa inn í með þeim hætti sem heimilt er samkvæmt þessu frumvarpi. Þess vegna er mikilvægt að þar sé að baki úrskurður dómstóla.