151. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2020.

samkomulag ríkis og sveitarfélaga.

[15:17]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Einstaklingar hafa þurft að dvelja á Landspítalanum svo mánuðum skiptir eða meira en ár vegna þess að sveitarfélögin segjast ekki geta veitt þeim lögbundna þjónustu lengur. Hagsmunasamtök þeirra hafa biðlað til stjórnvalda að leysa mál þeirra strax. Er ekki kominn tími til að endurskoða fjárhagslegan grundvöll á þeirri þjónustu sem sveitarfélögin veita fötluðu fólki og fólki með langvarandi stuðningsþarfir? Vegna þess hvernig kerfið er uppbyggt lendir fólk ítrekað í því að fá ekki viðeigandi þjónustu, af því að samninga vantar milli sveitarfélaga og hins opinbera um fjármagn.

Það á ekki að vera hægt að neita fólki ítrekað um nauðsynlega þjónustu. Það er ekkert annað en gróf mismunun. Það er mannréttindabrot að svipta hreyfihamlað fólk sjálfræði og nauðungarvista það á stofnun. Ef það á að fela sveitarfélögum að sinna slíkri þjónustu verður að tryggja möguleika til að fjármagna þá þjónustu. Þá á að hvíla lögskylda á stjórnvöldum til að veita þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir óháð því hvort samkomulag hafi náðst um fjármagn. Þannig myndu þeir sem eru hlunnfarnir a.m.k. öðlast bótakröfurétt á hendur ábyrgðaraðila þeirrar þjónustu sem er veitt. Einnig þarf að koma í veg fyrir að ungt og miðaldra fólk með miklar stuðningsþarfir eigi engra annarra kosta völ en að dvelja á öldrunarheimilum. Hjúkrunarheimili er fyrir eldri borgara og öllum til vansa að nauðungarvista fólk þar. Hvernig væri nú að hæstv. félagsmálaráðherra bretti upp ermarnar, hysjaði upp um sig buxurnar og kæmi þessum málum strax í lag eins og honum ber, eða er hann sáttur við stöðuna eins og hún er? Finnst honum þetta eðlilegt fyrirkomulag og ef ekki, hvað ætlar hann að gera?