151. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

200. mál
[18:38]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti, nr. 50/2020, afgreiðsla umsókna. Frumvarpið kemur frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar, en að baki meiri hlutanum standa, auk þess sem hér stendur, Jón Steindór Valdimarsson, Bryndís Haraldsdóttir, Brynjar Níelsson, Ólafur Þór Gunnarsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Willum Þór Þórsson.

Frumvarpið er í sjálfu sér einfalt eins og fram kemur, það er tvær greinar og þar af er gildistökugrein.

Með frumvarpinu er lögð til ein breyting á lögum um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laganna ber atvinnurekendum að skila umsókn um stuðning mánaðarlega til Skattsins, fyrir næstliðið launatímabil og eigi síðar en 20. hvers mánaðar. Við framkvæmd laganna hefur komið í ljós að þessi tímafrestur hefur reynst óþarflega knappur. Ábendingar hafa komið fram um að atvinnurekendur, sem uppfylla að öðru leyti skilyrði laganna, hafi ekki náð að skila inn umsóknum í tæka tíð vegna hins skamma skilafrests. Með hliðsjón af markmiði laganna um að tryggja atvinnurekendum sem horfa fram á umfangsmikið tekjutap stuðning vegna faraldurs kórónuveiru og aðgerða sem honum tengjast, er lagt til að atvinnurekendum verði veitt ríkara svigrúm við skil á umsóknum. Lagt er til að Skattinum verði heimilað að afgreiða umsóknir sem hafa borist að liðnum umsóknarfresti samkvæmt 1. mgr. 7. gr. enda uppfylli umsækjandi að öðru leyti öll skilyrði laganna fyrir stuðningi. Atvinnurekendum, sem uppfylla skilyrði til greiðslu stuðnings en náðu af einhverjum sökum ekki að skila inn umsókn innan núgildandi frests, gæfist þannig kostur á að fá afgreiðslu á umsókn sinni.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpið gangi beint til 2. umr.