151. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2020.

loftslagsmál.

32. mál
[19:11]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem nú aðallega hingað upp til að lýsa yfir velþóknun minni á þessu máli og stuðningi við það, þetta er skynsamlegt mál og kallar í rauninni ekki á of mikil heilabrot. Þetta virðist algerlega samrýmast heilbrigðri skynsemi og þetta eru vel hugsaðar og vel útfærðar hugmyndir.

Mig langar aðeins að eiga orðastað við hv. þingmann um eitt sem maður heyrir stundum efasemdarmenn tala um varðandi það hvort rétt sé að fara út í mjög róttækar aðgerðir í loftslagsmálum. Það er ótti við að hér verði efnahagslegar hamfarir, þ.e. ef mjög skarpt er tekið á, t.d. með 70% samdrætti, leiði það til efnahagslegra hamfara og geti leitt yfir þjóðirnar og samfélag okkar alveg ómældar hörmungar. Ég hef tilhneigingu til að líta á þetta öðrum augum. Ég held þvert á móti að þetta geti orðið drifkraftur fyrir efnahagslegar framfarir, orðið efnahagsleg lyftistöng og verið aflvaki til nýsköpunar um allt samfélagið. Það er raunar sýn okkar í Samfylkingunni í nýjum tillögum sem við kennum við ábyrgu leiðina. Það er leiðarljós okkar að hér þurfi að verða græn atvinnubylting, eins og við köllum það. Mig langar aðeins að heyra hv. þingmann hugleiða hvort þetta veiti ekki einmitt tækifæri, (Forseti hringir.) þessi mikli samdráttur í losun.