151. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2020.

störf þingsins.

[15:21]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Okkur sagnfræðingum þykir oft eftirtektarvert þegar sagan endurtekur sig og við sjáum eitthvað stinga upp kollinum sem við könnumst við úr sögunni. Það er þó ekki alltaf endilega ánægjulegt. Ég verð að segja, forseti, að ég vissi ekki alveg hvaðan á mig stóð veðrið þegar ég kíkti á ný plögg frá Viðskiptaráði Íslands sem hefur núna tekið saman greinargerð um hvað það telur réttu leiðina úr ástandinu sem við erum í. Þar er nefnilega að finna ýmsa gamla kunningja, ef svo má að orði komast, tillögur um hvernig megi minnka umsvif ríkisins í ýmsu, m.a. á sviði samfélagslegrar mótunar, sameina ríkisstofnanir, lesist: hagræðing, eins og við þekkjum það, draga úr lögverndun og leyfisskyldu, lesist: minna eftirlit, og hvernig eigi að ýta undir einkastarfsemi í ýmsu, t.d. heilbrigðiskerfinu.

Þetta er kunnuglegt stef frá því fyrir hrun, frá því að við keyrðum samfélagið í þrot, frá nýfrjálshyggjuárunum. Ég verð að segja, forseti, að þetta eru ekki aufúsugestir sem stinga upp kollinum núna, ekki í mínum huga í það minnsta.

Það er morgunljóst að tilefni er til að staldra við núna og velta fyrir sér hvað það sé gott að ríkisstjórnin hafi eflt opinbera heilbrigðiskerfið og stofnanir og hvað hið opinbera kerfi skipti miklu máli. Úrelt hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar er ekki rétta leiðin út úr þessari kreppu. Rétta leiðin út úr kreppunni er leið samneyslu og velferðar.