151. löggjafarþing — 13. fundur,  21. okt. 2020.

fasteignalán til neytenda og nauðungarsala .

34. mál
[16:18]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka kærlega fyrir þetta mál, markmiðið er mjög gott, með leyfi forseta: „Markmið frumvarpsins er að stuðla að vandaðri lánastarfsemi með því að færa skuldurum að fasteignalánum í hendur þann möguleika að láta af hendi veðandlag lána sinna, þ.e. viðkomandi fasteign, og ganga skuldlausir frá borði ef í harðbakkann slær.“ Þess vegna er þetta kallað lyklafrumvarp, fólk skilar lyklunum ef skuldirnar hafa vaxið veldisvexti, eins og verðtryggðar skuldir sem við sáum sérstaklega í hruninu og þessar sem voru tengdar erlendum gjaldmiðli. Fólk er því ekki taka þessa áhættu inn í framtíðina þannig að lífið endi í rúst. Það getur bara skilað lyklunum, bankinn eignast fasteignina en lántakandinn gengur laus frá borði, getur átt sér framtíð.

Þetta er ekki ný hugmynd. Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Bjarna Benediktssonar frá 2013 var með þetta á borðinu hjá sér. Ég er að hugsa hver raunveruleikinn sé á bak við þetta. Ég trúi því alveg að hv. þm. Ólafur Ísleifsson vilji þetta og myndi setja kraft sinn í það, enda hefur hann gert það með því að láta frumvarpið verða að veruleika. Það gerist ekkert af sjálfu sér. En ég er að hugsa um stuðningsmenn hans á málinu. Þar eru hv. þingmenn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson og Þorsteinn Sæmundsson sem voru í ríkisstjórninni sem var með lyklafrumvarpið sem eitt af kosningaloforðum sínum. Hv. þm. Ólafur Ísleifssonar kemur úr Sjálfstæðisflokknum, ef ég man það rétt, hefur alla vega stutt hann eitthvað og hv. þm. Karl Gauti Hjaltason líka. Ég er með kosningabæklinginn þar sem segir: Tækifæri til að byrja upp á nýtt. Þeir sem ekki ráða við greiðslur af íbúðarhúsnæði eigi að fá tækifæri á að „skila“ lyklum í stað gjaldþrots. Svo var stofnuð ríkisstjórn og ég var lesa stjórnarsáttmálann, af því að ég mundi eftir þessu, og þar er sagt að heimilin skuli vera í forgangi. Það náðist ekki að afnema verðtrygginguna, eins og var lofað, og lyklafrumvarpið náðist ekki í gegn, eins og var lofað. Það náðist að bjarga þeim sem hvort eð er náðu að bjarga sér út úr hruninu, ekki þeim sem töpuðu eignum sínum. Ég þurfti að berjast við ríkisstjórnina um að stöðva nauðungarsölu, sem ég hef lagt til aftur núna. (Forseti hringir.) Hver heldur hv. þingmaður að raunverulegi viljinn sé í þessu? Því að sporin hræða varðandi vilja þeirra sem eru á þessu máli, fyrir utan kannski hv. þingmann.