151. löggjafarþing — 13. fundur,  21. okt. 2020.

fasteignalán til neytenda og nauðungarsala .

34. mál
[16:20]
Horfa

Flm. (Ólafur Ísleifsson) (M):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni fyrir andsvarið. Ég er afar stoltur af meðflutningsmönnum mínum á frumvarpinu. Þetta eru valinkunnir menn og af góðu kunnir. Ég er líka þess meðvitaður að ég er ekki sá fyrsti sem hefur haft forgöngu um lyklafrumvarp á Alþingi. Ég gat þess einmitt sérstaklega, ég man ekki hver talan var, en ég held ég hafi nefnt að þetta væri kannski í sjöunda sinn sem slíkt frumvarp er lagt fram. Það var kannski á tímum áður en við tveir vorum af kjósendum leiddir hingað inn í þennan sal. Hv. þingmaður er hins vegar búinn að vera hérna eitthvað lengur en ég, en ég er ekki til frásagnar um einhverja fortíð á Alþingi eða einhverra ríkisstjórna sem ég átti enga aðild að og voru ekki á mína ábyrgð.

Þetta mál er, eins og ég gat um, unnið í samvinnu við Hagsmunasamtök heimilanna og þar er sú mikla sérfræðiþekking sem ég gerði hér að umræðuefni sem gerir það að verkum að þegar stjórnvöld eru að fjalla um þessi mál þá tel ég, eins og ég gat um í ræðu minni, að þau geri vel í því að kalla þau að borðinu og leita sjónarmiða þeirra og ábendinga, ekki bara þegar allt er frágengið heldur á fyrstu stigum. Sú leið sem þarna er farin felst í raun og veru í því að breyta aðalatriðum, tiltekinni grein í lögum um fasteignalán til neytenda, lög sem eru frá 2016, og síðan að gera samsvarandi breytingar á lögum um nauðungarsölu. Þetta er mjög vandað og mjög gott frumvarp og ég vona að það fái þann stuðning hér á hinu háa Alþingi sem það svo sannarlega verðskuldar.