151. löggjafarþing — 13. fundur,  21. okt. 2020.

fasteignalán til neytenda og nauðungarsala .

34. mál
[16:51]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Mig langar að koma hingað upp til að mæla nokkur orð um frumvarp um breytingu á lögum um fasteignalán til neytenda og nauðungarsölu. Þetta er í raun og veru hið svokallaða lyklafrumvarp sem hefur verið lagt fram oft áður, eins og hefur komið fram í ræðum hv. þingmanna. Reyndar er þetta endurunnið, lagfært og mjög vandað frumvarp sem 1. flutningsmaður, hv. þm. Ólafur Ísleifsson, mælti fyrir hér áðan.

Þetta er fyrst og fremst frumvarp til varnar heimilunum og um leið, eins og hefur komið fram, til hagsbóta fyrir þjóðfélagið. Þeirri einhliða áhættu lántaka sem hefur ríkt til margra ára er aðeins breytt í þessu frumvarpi og við getum sagt að þarna sé sett inn þátttaka lánveitanda í áhættu. Yfirleitt eru lántakendurnir í mjög veikri stöðu gagnvart lánveitendum. Það hefur nú bara verið þannig og oft verið mjög mikil óánægja með það. Það er óréttlátt því að auðvitað er lántaka, hvernig sem hún er og ekki síst í lántökum vegna fasteigna sem er ein stærsta fjárfesting sem fjölskylda eða einstaklingur tekur sér yfirleitt fyrir hendur, samningur á milli tveggja aðila. Og við samninga ætti að vera skýrt að báðir njóti góðs af. En sporin hræða.

Nú erum við í kreppu vegna Covid-19 veirunnar, atvinnuleysi hefur aukist og á sjálfsagt eftir að aukast enn. Þar með er geta þeirra sem eru að borga af lánum minni, ég tala nú ekki um þeirra sem verða atvinnulausir. Því finnst okkur sem leggjum fram þetta frumvarp nauðsynlegt að það komist í gegn. Verðbólgan hefur kannski ekki stokkið af stað en hún er samt komin yfir verðbólgumarkmið. Þau eru 2,5% en verðbólgan er komin yfir 3% og nálgast 4%. Við getum ekki alveg séð hvað gerist í nánustu framtíð en eins og staðan er núna eru hlutirnir allavega að verða mjög alvarlegir efnahagslega. Því er þetta mjög brýnt.

Þó að frummælandi hafi farið mjög vel í gegnum frumvarpið langar mig aðeins að grípa niður í nokkur atriði. Í greinargerð stendur m.a., með leyfi forseta:

„Samkvæmt upplýsingum frá Hagsmunasamtökum heimilanna eru mál sem varða eftirstöðvar fasteignalána í kjölfar nauðungarsölu meðal þeirra algengustu sem koma nú inn á borð samtakanna og eru jafnvel dæmi um að neytendur séu enn krafðir um meintar eftirstöðvar þótt þær hafi fengist að fullu greiddar við nauðungarsölu.“

Þetta er akkúrat það sem frumvarpið fjallar um, þ.e. að klippa á það að þegar viðkomandi skilar inn lyklunum sé settur punktur á eftir.

Og aðeins um markmið frumvarpsins þar sem segir, með leyfi forseta:

„Markmið frumvarpsins er að stuðla að vandaðri lánastarfsemi með því að færa skuldurum að fasteignalánum í hendur þann möguleika að láta af hendi veðandlag lána sinna, þ.e. viðkomandi fasteign, og ganga skuldlausir frá borði ef í harðbakkann slær.“

Þetta er akkúrat það sem ég var að segja með öðrum orðum hérna rétt á undan. Svo aðeins um nauðsyn og kosti lagasetningarinnar, með leyfi forseta:

„Brýn nauðsyn þess að lögfesta úrræði á borð við það sem frumvarp þetta mælir fyrir um kom bersýnilega í ljós í kjölfar fjármálahrunsins árið 2008 þegar gengi krónunnar hríðféll með þeim afleiðingum að gengistryggðir lánssamningar urðu skuldurum ofviða. Verðlagsáhrif gengisfallsins höfðu sambærilegar afleiðingar fyrir verðtryggða lánssamninga. Úrræðaleysið sem blasti við neytendum olli fordæmalausu uppþoti í samfélaginu sem dró dilk á eftir sér. Nauðsynlegt er að læra af reynslunni og innleiða úrræði til að fyrirbyggja að sagan endurtaki sig. Að fenginni þeirri reynslu yrði til mikilla bóta að styrkja stöðu skuldara fasteignaveðlána með þeim hætti sem frumvarpið kveður á um. Auk þess að færa skuldurum í hendur nauðsynlegt úrræði til að mæta ófyrirséðum fjárhagsörðugleikum myndi sú áhættudreifing sem í því felst hvetja lánastofnanir“ — hvatning er nefnilega ágætisorð — „til að ástunda vandaðri lánastarfsemi en ella.“

Skilningur minn á orðinu hvatning er að maður gangi frekar til þess verks sem nauðsynlegt er ef hvatning er fyrir hendi. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Eins og ég segi hefur frummælandi gert góða grein fyrir frumvarpinu sem og þeir sem hafa flutt ræðu hér á undan. Ég vona og trúi því að frumvarpið nái fram að ganga og verði að lögum frá hinu háa Alþingi svo að varnir heimilanna gagnvart lánastofnunum verði betri.