151. löggjafarþing — 13. fundur,  21. okt. 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

35. mál
[17:10]
Horfa

Flm. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Flutningsmenn þessa frumvarps um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, og lögum um Ábyrgðasjóð launa, nr. 88/2003, með síðari breytingum, eru auk þeirrar sem hér stendur hv. þingmenn Samfylkingarinnar, Logi Einarsson, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Andri Thorsson og Helga Vala Helgadóttir.

Hér á landi nutu alls 18.443 atvinnulausir einstaklingar atvinnuleysisbóta úr almenna bótakerfinu í lok septembermánaðar en 3.319 höfðu minnkað starfshlutfall samkvæmt hlutabótaleið. Þetta kemur fram á síðu Vinnumálastofnunar. Samtals voru þetta 21.762 einstaklingar. Í þessum tölum eru ekki þeir sem nú eru á uppsagnarfresti og því er fyrirséð að atvinnuleysi mun aukast á næstunni.

Ég vil, herra forseti, fara aðeins yfir atvinnuleysistölurnar eins og þær birtast eftir landsvæðum því að það er nokkuð ljóst að byrðarnar vegna heimsfaraldursins leggjast misþungt á landshlutana. Til dæmis var atvinnuleysi í september 8,4% á Suðurlandi, á Austurlandi var það 5,2%, á Norðurlandi eystra 6,6%, á Norðurlandi vestra 3,8%, á Vestfjörðum 3,7%, á Vesturlandi 6,3%, á Suðurnesjum 19,6% og á höfuðborgarsvæðinu 10,1%. Þetta gerir samtals 9,8% atvinnuleysi á öllu landinu.

Þegar tölurnar á síðu Vinnumálastofnunar eru skoðaðar betur og eftir landsvæðum og kyni kemur í ljós að á öllum landsvæðum nema á höfuðborgarsvæðinu eru hlutfallslega fleiri konur atvinnulausar en karlar. Ekki er mikill munur á höfuðborgarsvæðinu. Þar eru 9,8% karla atvinnulausir en 10,3% kvenna. Mestur er munurinn á Suðurnesjum þar sem 22,5% kvenna eru atvinnulausar en 17,7% karla. Á Suðurlandi eru 9% kvenna atvinnulausar en 7,9% karla, á Austurlandi eru það 6,3% kvenna en um 4,5% karla. Svona er þetta og munurinn er sums staðar ekki mikill. En eins og ég sagði áðan er hlutfallslegt atvinnuleysi meðal kvenna meira í öllum landshlutum nema á höfuðborgarsvæðinu. Það er sannarlega athyglisvert vegna þess að atvinnuþátttaka kvenna var lægri fyrir. Það hallar því í raun enn meira á konur í þessari atvinnukreppu þótt sannarlega sé vandinn mikill hjá báðum kynjum og á landinu í heild.

Laun fyrir fullt starf eru í kringum 800.000 kr. á mánuði, samkvæmt framreiknuðum tölum frá Hagstofu Íslands um laun fyrir árið 2018, og á Íslandi eru atvinnuleysisbætur áunnin réttindi launafólks. Fyrirkomulagið byggist á grunngildum norrænnar jafnaðarstefnu og var komið á hérlendis fyrir tilstilli verkalýðshreyfingarinnar og stjórnmálaflokka sem tóku slaginn fyrir almenning. Atvinnuleysistryggingar eru hagkvæmar frá þjóðhagslegu sjónarmiði hvernig sem á það er litið, einnig miðað við hagstjórnarleg markmið. Grunnatvinnuleysisbætur eru nú 289.510 kr. á mánuði. Að auki eru greiddar 11.580 kr., eða 4% af grunnatvinnuleysisbótum, með hverju barni sem er yngra en 18 ára. Með lögunum nr. 37/2020 voru greiðslur með hverju barni hækkaðar í 6% til bráðabirgða til 31. desember 2020, eða í 17.371 kr. Var það gert að tillögu Samfylkingarinnar.

Herra forseti. Samfylkingin lagði fram mjög margar tillögur til breytinga til að bæta hag þeirra sem verst verða úti í þessu þessum heimsfaraldri. Þetta var eina tillagan sem var samþykkt, en þó það. Staðan er samt sú að fólk sem er komið á grunnatvinnuleysisbætur þarf að vera með þrjú börn á framfæri sínu til að ná því að komast yfir lágmarkstekjutrygginguna samkvæmt lífskjarasamningunum. Það sér hver maður að það verður að styðja heimilin í landinu sem hafa orðið fyrir atvinnumissi og mjög miklu tekjutapi.

Tekjutengdar atvinnuleysisbætur eru greiddar út í allt að þrjá mánuði í upphafi hvers bótatímabils sem er alls 30 mánuðir samkvæmt lögunum. Tekjutengda tímabilið hefur verið lengt tímabundið í sex mánuði frá 1. september 2020. En allir þeir sem fengu grunnatvinnuleysisbætur fyrir þann tíma fá aðeins þrjá mánuði tekjutengda. Með frumvarpinu sem ég mæli hér fyrir er ætlunin að tryggja að allir sem voru atvinnulausir 1. september 2020 fái tekjutengdar bætur í sex mánuði, enda felur lengd tímabilsins í sér illskiljanlega og órökstudda mismunun standi hún óbreytt. 12.000 manns voru á grunnatvinnuleysisbótum í ágúst. Margítrekað var bent á að verið væri að skilja þau eftir. Á það var ekki hlustað og mismununin er látin standa. Það bólar ekki enn á frumvarpi frá ríkisstjórninni til að leiðrétta og stöðva þessa mismunun. En það þarf að gera og það leggjum við í Samfylkingunni til með þessu frumvarpi.

Hámarksfjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta er 456.404 kr. á mánuði. Tekjutenging bóta skiptir því litlu máli fyrir heildarmyndina ef atvinnuleysistímabilið verður langt. Eftir skatt eru grunnatvinnuleysisbætur 242.700 kr. og tekjutengdar bætur geta mest orðið 348.500 kr. eftir skatt. Af þessum tölum má sjá að fjárhagslegt tjón einstaklings sem missir vinnuna er verulegt og hefur mikil áhrif á rekstur heimilis hans og fjölskyldu. Með hlutabótaleiðinni er atvinnurekendum gert kleift að halda ráðningarsambandi við starfsmenn sína. Í frumvarpinu er lagt til að viðmiðið verði lækkað aftur í allt að 25% starfshlutfall enda getur það skipt verulegu máli fyrir atvinnurekanda að halda ráðningarsambandi við t.d. fjóra starfsmenn með reynslu og þekkingu innan fyrirtækis, í stað tveggja fái ákvæðið að standa óbreytt. Lagt er til að hlutabótaleiðin verði framlengd til 1. júní 2021 því að augljóslega mun taka tíma að byggja upp starfsemi að nýju eftir djúpa atvinnukreppu en afar mikilvægt er að góð viðspyrna náist. Það tryggjum við með því að fyrirtækin geti haldið ráðningarsamningi við sem flesta starfsmenn með reynslu og þekkingu sem geta endurreist starfsemina á sem stystum tíma.

Augljóslega mun sá sem þarf að framfleyta sér á atvinnuleysisbótum draga verulega úr neyslu sinni. Mikið og langvarandi atvinnuleysi hefur því einnig neikvæð áhrif á eftirspurn í hagkerfinu sem aftur fækkar störfum. Kreppan í kjölfar Covid-19 faraldursins bitnar harðast á þeim sem missa vinnuna og fjölskyldum þeirra. Grunnatvinnuleysisbætur eru mun lægri en lágmarkslaun og lágmarkstekjutrygging. Til að dreifa byrðunum telja flutningsmenn frumvarpsins afar mikilvægt að tekjutengda tímabilið verði lengt um þrjá mánuði fyrir alla, grunnatvinnuleysisbætur hækkaðar í 95% af lágmarkslaunum og rétturinn til atvinnuleysistrygginga lengdur um eitt ár. Auk þess verði framlag með hverju barni hækkað varanlega og hlutabótaleiðin framlengd til 1. júní 2021 með heimild til 25% hlutastarfa.

Atvinnumissir er alvarlegra mál í kreppu en í góðæri. Fjöldi fólks missir vinnuna á sama tíma, störfum fækkar, erfiðara verður að finna aðra vinnu og líkurnar á langtímaatvinnuleysi aukast. Slæmar félagslegar og heilsufarslegar aukaverkanir langtímaatvinnuleysis eru þekktar. Þær eru kostnaðarsamar fyrir fjölskyldur og samfélagið allt. Þegar fram líður verður mikilvægast að fjölga störfum. Það mun taka tíma. Atvinnuleysisbætur má hins vegar hækka strax. Mikilvægt er að atvinnuleitendur finni starf þar sem menntun þeirra og reynsla nýtist sem best. Að öðrum kosti er hætta á að verðmæt menntun og sérhæfing glatist.

Því hefur verið haldið fram, m.a. af Samtökum atvinnulífsins, að hækki atvinnuleysisbætur muni atvinnulausum fjölga og því sé mikilvægt að halda atvinnuleysisbótum lágum. Þegar störfum fækkar þúsundum saman í heimsfaraldri sem veldur miklum erfiðleikum í stærstu atvinnugrein þjóðarinnar eru slíkar fullyrðingar augljóslega rangar, herra forseti. Engin ný störf verða til með því að skapa neyð á heimilum þeirra sem missa vinnuna við þessar aðstæður. Auk þess sýna rannsóknir að atvinnuleysi er ekki meira í löndum sem búa við öflugar atvinnuleysistryggingar. Stór hluti þeirrar upphæðar sem ríkið notar til að hækka atvinnuleysistryggingar skilar sér beint til baka í sköttum og auknum efnahagsumsvifum.

Herra forseti. Við í Samfylkingunni viljum dreifa byrðunum. Við teljum að það sé í raun engin sátt í samfélaginu um að láta þau sem missa vinnuna í þessum heimsfaraldri bera þyngstu byrðarnar. Auðvitað eigum við að létta undir með þeim og við leggjum til að það verði gert með þeim hætti sem ég hef farið yfir hér. Við eigum að jafna leikinn og við eigum að standa með þeim sem eiga í miklum erfiðleikum og hafa orðið fyrir miklu tekjufalli. Og við eigum að líta sérstaklega á landshluta og sveitarfélög í miklum vanda.

Ef þau 12.000 sem voru komin á grunnatvinnuleysisbætur í ágúst og höfðu aðeins fengið þriggja mánaða tekjutengt tímabil væru t.d. allt saman fólk á góðu kaupi gæti kostnaðurinn verið rétt tæpir 5 milljarðar við að tryggja það réttlæti að allir fengju sex mánaða tekjutengt tímabil en ekki bara sumir eins og ríkisstjórnin leggur til. Það getur aldrei orðið dýrara vegna þess að hámark er á tekjutengdu bótunum og við vitum hverjar grunnatvinnuleysisbæturnar eru.

Þegar við horfum á milljarðana sem farið hafa í að laga efnahag fyrirtækja, sem okkur í Samfylkingunni finnst sjálfsagt að gera og nauðsynlegt að gera, eru þessir 5 milljarðar ekki há upphæð í því samhengi, þ.e. til að tryggja jafnræði meðal þeirra sem misst hafa vinnuna og láta ekki skipta máli hvenær einhver hefur misst vinnuna.

Herra forseti. Ég legg það til að þetta frumvarp gangi til hv. velferðarnefndar að lokinni þessari umræðu.