151. löggjafarþing — 13. fundur,  21. okt. 2020.

almannatryggingar.

92. mál
[17:38]
Horfa

Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér með frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, aldurstengd örorkuuppbót. Flutningsmenn auk mín eru Inga Sæland og Helgi Hrafn Gunnarsson. Frumvarpið hljóðar svo:

„1. gr. Á eftir 1. mgr. 21. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:

Þegar réttur til örorkulífeyris fellur niður og taka ellilífeyris hefst skal réttur til aldurstengdrar örorkuuppbótar haldast óbreyttur.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Frumvarpið var áður lagt fram á 150. löggjafarþingi, 294. mál, en dagaði upp í nefnd eins og vill verða um mörg góð mál. Þegar örorkulífeyrisþegi verður 67 ára, þ.e. nær þeim aldri þegar réttur til töku ellilífeyris myndast, fellur niður réttur hans til aldurstengdrar örorkuuppbótar. Við þetta tímamark skerðast greiðslur viðkomandi um þá upphæð sem nemur aldurstengdri örorkuuppbót hans. Þessi skerðing hefur mikil áhrif á ráðstöfunartekjur öryrkja og er þeim verulega íþyngjandi.

Rökin fyrir því að greiða aldurstengda örorkuuppbót eru þau að aflahæfi viðkomandi skerðist til lengri tíma allt eftir því hve ungur hann er þegar hann er metinn til 75% örorku. Þau rök eiga við óháð því hvort viðkomandi er 66 eða 67 ára, enda er það svo að með sífellt bættum læknavísindum hefur aflahæfi fólks aukist vel fram yfir 67 ára aldur. Þeir sem eru vinnufærir geta nýtt sér úrræði laganna til töku hálfs lífeyris eða nýtt sér frítekjumörk ellilífeyris en þeir sem eru óvinnufærir njóta þá engra slíkra úrræða. Því á hin aldurstengda örorkuuppbót ekki að falla niður við upphaf töku ellilífeyris.

Virðulegi forseti. Ef við horfum til þess hver aldurstengd örorkuuppbót er, þá er upphæðin er 577.296 kr. á ári eða 48.108 kr. á mánuði. Frítekjumörk eru 2.575.220 kr. á ári eða 214.602 kr. á mánuði. Greiðslurnar falla niður við 4.884.404 á ári eða 407.034 á mánuði.

Í 21. gr. almannatryggingalaga um aldurstengda örorkuuppbót, segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Aldurstengd örorkuuppbót greiðist þeim sem fá greiddan örorkulífeyri skv. 18. gr. eða fullan örorkulífeyri samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga. Aldurstengd örorkuuppbót greiðist einnig þeim sem fá greiddan endurhæfingarlífeyri samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Um uppbótina gilda ákvæði 1. mgr., sbr. 2. mgr., 2. málsl. 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. um búsetutíma, örorkumat og skerðingu vegna tekna. Fjárhæð uppbótar, sbr. 2. mgr., miðast við þann aldur sem einstaklingur var í fyrsta sinn metinn 75% öryrki skv. 1. og 2. mgr. 18. gr. eða lögum um slysatryggingar almannatrygginga eða uppfyllir skilyrði 7. gr. laga um félagslega aðstoð.

Það að reyna að skilja þetta sýnir svart á hvítu hversu fáránleg almannatryggingalögin eru orðin og hversu gífurlegt bútasaumsskrímsli þau eru. Ég endurtek þessa runu bara til að sýna fram á hversu fáránleg í sjálfu sér lagasetning öll er orðin; „um uppbótina gilda ákvæði 1. mgr., sbr. 2. mgr., 2. málsl. 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr.“ Það er alveg með ólíkindum hvernig þetta er sett upp. En svo segir:

„Fjárhæð mánaðarlegrar aldurstengdrar örorkuuppbótar, sbr. 1. mgr., skal vera hlutfall af óskertum mánaðarlegum örorkulífeyri skv. 18. gr. og miðast við fæðingardag, sbr. eftirfarandi:“

Málið er ekki svo einfalt að allir fái 48.108 kr. á mánuði. Þeir sem eru 16–24 ára fá 100% aldurstengdu uppbótina eða 48.108 kr. á mánuði, en síðan byrjar upphæðin að skerðast kerfisbundið. Við 30–31 árs er hún komin niður í 31.270 kr. Við 34–35 ára er hún 21.649 kr. Við 40–45 ára verður gífurleg skerðing, þá eru þetta orðnar 7.216 kr. eða 15% af upphaflegri upphæð. Við 51–55 ára er þetta komið í 3.608 kr. og við 61–66 ára eru þetta 2,5% eða 1.203 kr. Það segir okkur þá einföldu sögu að þeir sem fá aldurstengda örorkuuppbót eru þeir sem verða fyrir örorku á unga aldri eða eru fæddir þannig að þeir fara strax inn í örorkukerfið við 18 ára aldur og eru þar af leiðandi oft þeir verst stöddu í kerfinu. Það má eiginlega fullyrða að þessi aldurstengda uppbót er eiginlega að stærstum hluta hjá þessum hópi lífeyrissjóðsþega. Þess vegna er það alveg með ólíkindum og óskiljanlegt fyrirbrigði að við það að verða 67 ára verða þessir einstaklingar heilbrigðir í boði ríkisins. En við vitum að það er langt í frá að þeir verði heilbrigðir við 67 ára aldur. Það eru meiri líkur en minni að við 67 ára aldur sé heilsa þeirra mun verri. Þar af leiðandi eiga þeir mun meiri rétt á að fá þessa upphæð, 48.108 kr. fyrir skatt.

Í því samhengi að þessir illa hreyfihömluðu einstaklingar eða lamaðir fá þessa upphæð þá verðum við líka að átta okkur á því að þessi hópur er sá hópur sem síst fær vinnu. Og af hverju? Jú, vegna þess, eins og hefur komið fram í svari við fyrirspurn sem hér var gerð og kemur skýrt fram, þá ræður ekki einu sinni ríkið fatlaða einstaklinga eða hreyfihamlaða í vinnu. Þetta er sá hópur sem á þar af leiðandi minnsta möguleika á að auka tekjur sínar. Ef þeir á annað borð reyna að auka tekjur sínar og fá vinnu kemur það ömurlega upp að frítekjumarkið er 109.000 kr. Það hefur haldist óbreytt síðan 2007, það er orðið mjög langt síðan það var hækkað. Nei, sennilega 2012, en það breytir ekki því máli að ef það væri rétt gefið og frítekjumarkið hefði verið reiknað eins og á að reikna það væri það ekki undir 200.000 kr. Þarna er verið að taka hreinlega þær 100.000 kr. sem vantar upp á, ekki bara að skatta um 37% eða 40% heldur einnig skerða um 45%. Þannig að þessi hópur fær líka gígantískar skerðingar. Þessi hópur hefur líka lent í þeirri kvöð sem kjaragliðnun hefur valdið og farið illa út úr því að fá ekki þær hækkanir, hvað þá launaskrið. Það er eitthvað sem er ekki í boði fyrir þennan hóp. Þar af leiðandi hefur hann líka setið eftir að stærstum hluta vegna Covid-málanna.

Við eigum að sýna sóma okkar í því að sjá til þess að þessir einstaklingar sem, eins og ég sagði í upphafi, hafa minnsta möguleika á því að afla sér tekna og hafa lífeyrissjóð — við eigum að hugsa til þess að þetta sé þeirra lífeyrissjóður. Þetta eru ekki gífurlegar upphæðir. Þetta eru eiginlega lágar upphæðir og ef rétt væri þá þyrfti þetta fólk, þegar það er orðið 67 ára og er komið á þann aldur, eiginlega að fá meira. Út frá þeirra hreyfihömlun og fötlun er engin spurning að þau þurfa á meiru að halda við þetta aldursmark heldur en minna. En því miður, eins og ég sagði, virðist ríkið halda að með því að fólkið er komið á eftirlaun við 67 ára aldur sé búið að blessa það þannig að það geti bara orðið heilbrigt og gengið aftur. Það er ekki svo.

Ég vona heitt og innilega að það þurfi ekki að flytja þetta mál eina ferðina enn. Ég vísa málinu til velferðarnefndar og vona að þar verði tekið vel á móti því og við getum komið því hingað inn og klárað það vegna þess að þetta er eitt af því sem er okkur í þinginu til skammar, að við skulum ekki vera búin að gera eitthvað í. Við eigum að sjá til þess að þessi hópur fái virkilega það sem hann á rétt á.