151. löggjafarþing — 13. fundur,  21. okt. 2020.

stjórnarskipunarlög.

26. mál
[19:22]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, að sjálfsögðu ekki enda hefur hv. þingmaður þá greinilega ekki náð ekki öllu því sem ég hef talað um þetta mál. Að sjálfsögðu á að vera þjóðkirkjuákvæði samkvæmt niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Ég persónulega legg að sjálfsögðu fram breytingartillögur o.s.frv. og svo er þeim bara hafnað eða ekki, annaðhvort af þingheimi eða þjóðinni. Það er ekkert flókið.

Ég hef meira að segja talað um það í nákvæmlega þessu frumvarpi, sem hv. þingmaður vísaði í, að til að uppfylla ákvæði núverandi stjórnarskrár um þjóðkirkjuna gæti það að styðja hana og styrkja einfaldlega verið uppfyllt með því að halda úti Biskupsstofu eða einhverju slíku. Það uppfyllir ákvæði stjórnarskrárinnar ef það er mat þingsins. Mér finnst þetta ekkert rosalega flókið þegar allt kemur til alls.

Í fyrra andsvari spurði hv. þingmaður einmitt um útgáfuna 2013, af hverju hún væri svona heilög. Ég vil bara ítreka það að hún er ekki heilög. Ástæðan fyrir því að hún liggur fyrir eins og hún gerir núna er að stjórnarskráin, eins og var skilið við hana árið 2013, var sundur slitin. Það voru breytingartillögur hingað og þangað sem var búið að greiða atkvæði um en það var aldrei búið að taka saman skjalið eins og það var orðið í meðhöndlun þingsins. Fyrir tveimur þingum tók þingflokkur Pírata saman og púslaði saman greinargerðunum úr upprunalega frumvarpinu, úr meðhöndlun nefndanna og þingsins og umsagnir o.s.frv., og setti skjalið fram í heild sinni þannig að ekki þyrfti að flækjast fyrir fólki hver væri í raun og veru núverandi útgáfa frumvarpsins eins og þegar Alþingi stakk því ofan í skúffu.

Eins og ég sagði áðan er þetta alls ekki heilagt plagg. Það verður farið með plaggið í öll lýðræðisleg ferli sem hægt er að fara í. Þegar allt kemur til alls horfi ég til niðurstöðu (Forseti hringir.) þjóðaratkvæðagreiðslunnar og reyni að uppfylla hana og afhenda þjóðinni aftur heildstætt (Forseti hringir.) frumvarp, byggt á og grundvallað á drögum stjórnlagaráðs.