151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

stuðningur ríkissjóðs við sveitarfélög.

[10:31]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Sveitarfélögin hafa orðið fyrir gríðarlegu tekjufalli og auknum kostnaði í þessum aðstæðum. Þeim er býsna þröngt sniðinn stakkur. Álag á nærþjónustu eykst gríðarlega í þessu erfiða árferði og við erum að tala um leikskóla, skóla, öldrunarþjónustu, málefni fatlaðra o.fl. Nú þarf að verja þetta af alefli. Ég efast ekki um vilja sveitarfélaganna til þess, en útsvarstekjur fara minnkandi og framlög úr jöfnunarsjóði fara lækkandi samkvæmt fjármálaáætlun.

Þrátt fyrir að sveitarfélögin séu einn armur hins opinbera reka þau sig að mörgu leyti eins og fyrirtæki þar sem skýr greinarmunur er gerður á rekstri og fjárfestingu og áhersla á að halda rekstrinum við núllið. Ef þeim á að takast það á sama tíma og þau berjast við aukinn kostnað er hætt við að þau bregðist við með minni fjárfestingum. Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar gerir beinlínis ráð fyrir því. Hvort tveggja eru hins vegar afar slæmir kostir. Niðurskurður þjónustu bitnar harðast á tekjulægsta fólkinu og eykur mismun á milli fólks. Neyðist sveitarfélög til að draga úr fjárfestingu mun það soga máttinn úr viðspyrnunni og vinna beinlínis gegn örvandi aðgerðum ríkissjóðs. Það kemur illa niður á hagkerfinu í heild sinni, herra forseti, á öllum almenningi.

Nú er vissulega hægt að spyrja hvort sveitarfélögin eigi ekki bara og geti ekki skuldsett sig meira fyrir fjárfestingu. Þá er líka hægt að spyrja á móti: Er eðlilegt að þau neyðist til að gera það á lánakjörum sem eru mun lakari en þau sem standa ríkissjóði til boða? Á endanum er það nefnilega þannig að nettóskuldasöfnun hins opinbera verður nákvæmlega sú sama óháð því hvor armurinn tekur lánið. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Verður komið betur til móts við sveitarfélög landsins með beinum stuðningi eða í það minnsta hagstæðum lánalínur umfram það sem gert hefur verið hingað til?