151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

stuðningur ríkissjóðs við sveitarfélög.

[10:36]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það er einmitt vegna meiri beins stuðnings á Norðurlöndunum til sveitarfélaga sem þau eru ekki í eins vondri aðstöðu núna og sveitarfélögin okkar. Þau búa bara við ofboðslega erfitt ástand núna. 80% af launakostnaði sveitarfélaga er vegna fræðslumála og félagsþjónustu. Launakostnaður sveitarfélaga er 50% af rekstrarfé á ári á meðan hann er ekki nema 25% hjá ríkinu á sama tíma og verið er að skera niður. Ég er ekkert að tala um að ausa út peningum, mér hefur sýnst það vera drjúgt sem hefur verið sett í nauðsynlegar aðgerðir til fyrirtækja. Ég spyr einfaldlega: Kemur til greina að beita sér fyrir því að sveitarfélögin geti tekið hagstæðari lán, bara á svipuðum kjörum og stuðningslán til fyrirtækja voru? Og ég spyr á endanum: Er hæstv. ráðherra ekki sammála mér um það að veik viðspyrna og geta sveitarfélaganna til að taka þátt í þessu erfiða verkefni muni bitna á okkur öllum, líka verkefni hæstv. ráðherra?