151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

tekjustofnar sveitarfélaga.

[10:56]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Stefna stjórnvalda birtist í fjármálaáætlun, og ég spyr: Hvernig getur það verið meðvituð stefna ríkisstjórnarinnar að sveitarfélög dragi úr opinberri fjárfestingu í efnahagslegri niðursveiflu? Hvernig gengur að segja: Innspýting með vinstri hendinni og samdráttur með þeirri hægri? Hvers konar stefna er það eiginlega, bæði betra einhvern veginn? Það er ekki heil brú í þessari áætlun ríkisstjórnarinnar, að bæta við hérna, minnka þarna, aðhald á fatlaða, lífskjaraskerðing fyrir aldraða, uppsagnarstyrkir til fyrirtækja, meiri framkvæmdir hjá ríkinu og minni hjá sveitarfélögum. Þetta er svo sannarlega ríkisstjórn með breiða skírskotun, ekki til hægri og vinstri heldur út og suður. Þær eru kaldar kveðjurnar sem ráðherra sendir byggðum landsins, og það er stórskuldug framtíð. Það kæmi mér ekki á óvart að það myndi styrkja stöðu ríkisstjórnarinnar í áformum þeirra um lögþvingaðar sameiningar ef sveitarfélög þurfa að skuldsetja sig fyrir rekstri og verða enn háðari ölmusu frá ríkinu um hitt og þetta.