151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

kostnaður í heilbrigðiskerfinu.

[11:01]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það eiga í sjálfu sér ekki að vera ný tíðindi að ég telji erfitt að finna réttlætingu fyrir því að íslenska heilbrigðiskerfið standi straum af því að senda fólk til annarra landa á grundvelli réttar sem á rætur sínar í EES-samningnum, þegar á sama tíma er til staðar aðstaða og fólk til að sinna sömu aðgerðum á Íslandi. Það hef ég margoft tjáð mig um áður.

Það sem fléttast inn í þessa umræðu eru hlutir sem við erum að fást við í dag og verið er að bregðast af krafti við, m.a. í heilbrigðisráðuneytinu í augnablikinu, sem er fráflæðisvandinn í heilbrigðiskerfinu. Hann tvinnast saman við þetta mál með þeim hætti að vegna hans hefur dregið úr afkastagetu stóru sjúkrahúsanna vegna þeirra tegunda aðgerða sem í mörgum tilvikum eiga hér undir. Og já, ég tel að við höfum þessar vísbendingar, þessi dæmi um að við séum að senda fólk til annarra landa í aðgerðir sem hægt hefði verið að leysa fyrir minni tilkostnað hérna á Íslandi. En ég held líka að við höfum fjölmörg önnur dæmi um að með betra skipulagi gætum við komið meiru í verk fyrir sama eða minna fjármagn.

Þetta kallar á dýpri umræðu. Mér finnst oft og tíðum að þingið sé dálítið vanbúið í þeirri umræðu, hafi úr litlu að moða öðru en einhverjum einstökum dæmum, einstökum frásögnum. Af og til er farið í dýpri skoðanir, eins og t.d. átti við hjá fyrirtækinu Boston Consulting Group, sem skoðaði afköst og framleiðni í heilbrigðiskerfinu eða hluta þess á sínum tíma. Ég myndi fagna því mjög ef hér á vettvangi þingsins væri meira almennt aðhald með því að eiga frumkvæði að (Forseti hringir.) úttektum á afkastagetu og framleiðni í einstökum þáttum heilbrigðiskerfisins.