151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

eftirlit með innflutningi á búvörum.

[11:21]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Herra forseti. Að undanförnu höfum við haft til skoðunar í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að frumkvæði hv. þm. Líneikar Önnu Sævarsdóttur hvernig tollamálum er háttað varðandi innflutning á osti, mozzarella-osti eða jurtaosti eftir atvikum. Ég vona að ég sé ekki að rjúfa trúnað þó að ég segi að ýmislegt virðist þar málum blandið og komi einkennilega fyrir sjónir.

Almennt talað er það svo að þegar um er að ræða leikreglur í viðskiptum, tolla, skatta eða önnur gjöld, þá þurfa leikreglurnar að vera einfaldar, sanngjarnar og gagnsæjar. Það þarf að hafa afleiðingar að fara ekki að þessum leikreglum. Menn eiga ekki að hagnast á því heldur þvert á móti. Því miður gætir tregðu við að taka á misferli í íslensku viðskiptalífi. Við eigum enn nokkuð í land að sjá hér almennt ríkja heilbrigða viðskiptahætti. Almennt held ég að landsmenn skilji mikilvægi landbúnaðar, vilji sjá hér þróttmikla og framsækna matvælaframleiðslu um allt land, ekki síst á grænum forsendum þar sem það er haft að leiðarljósi sem sagt var svo vel í Landanum um daginn af ágætum sauðfjárbónda: Bændur eru gæslumenn landsins.

En eru tollatakmarkanir rétta leiðin til að styðja við íslenskan landbúnað? Ég hef verulegar efasemdir um það og mér sýnist raunar dæmin sanna hið gagnstæða. Ég held að einfalt og gagnsætt styrkjakerfi sé miklu skilvirkari og öflugri leið til að hlúa að lífvænlegum og lífvænum landbúnaði. Ég hef enn þá trú að full aðild að Evrópusambandinu sé leið sem bændur verði að fara að skoða af alvöru í stað þess að láta gæslumenn óbreytts ástands telja sér trú um að ekki megi skoða.