151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

eftirlit með innflutningi á búvörum.

[11:36]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrir það fyrsta þakka hv. málshefjanda þessarar umræðu fyrir frumkvæði hans og hæstv. fjármálaráðherra fyrir svör hans þar sem greinilega kom fram hversu alvarlega málið er tekið. Ég blæs því á gagnrýni þess efnis að hér sé bara látið reka á reiðanum og ekkert aðhafst.

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi rifja það upp að Ísland rekur mjög frjálslynda viðskiptastefnu. Hér á landi er tollskráin einhver sú frjálslyndasta sem er við lýði í heiminum og samkvæmt lista WTO erum við í áttunda sæti yfir þau lönd sem leggja tolla á hvað fæst númer í tollskránni. Um 90% af tollskránni eru tollfrjáls á Íslandi, eða reyndar 94,5%. Næsta land þar á eftir er Noregur með um 90%. Sambærilegt hlutfall hjá Evrópusambandinu er 26%. Þeir sem vilja horfa þangað vilja því múra okkur inni í tollabandalagi þótt þeir segist á sama tíma ætla að innleiða hér frelsi. Það er eins og kölski lesi guðspjöllin að halda því fram í ræðustól Alþingis að þar liggi frelsið. Það vil ég skilja eftir í þessari umræðu.

Ég vil bara undirstrika að tollverndin, framkvæmd tollasamninga og þau fáu tollnúmer sem við höfum enn lagt tolla á, samkvæmt tollskrá, snúast um fábreyttan íslenskan landbúnað. Fábreyttan segi ég vegna þess að tiltölulega fáar búgreinar hafa viðunandi starfsskilyrði hér í samanburði við bestu framleiðslulönd í heimi. Við höfum gert þetta af þeirri ástæðu að við viljum halda utan um þennan landbúnað. Þess vegna grafa þeir sem misnota þessa stöðu, brjóta reglurnar, bæði undan viðskiptafrelsinu og þeirri stefnu að halda utan um íslenskan landbúnað. Þess vegna á að sjálfsögðu ekki að líða þau brot.

Ég vil bara minna á að í febrúar, þegar samráðshópi um búvörusamninga varð ljóst að við værum að brjóta þessar reglur sendi hann í áliti sínu (Forseti hringir.) tilmæli um að taka á þessu. Ég fagna því að unnið sé markvisst að því í stjórnkerfinu.