151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

eftirlit með innflutningi á búvörum.

[11:41]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Þeir tollasamningar sem gerðir voru við ESB árið 2015 voru gerðir í mikilli andstöðu við bændur í landinu, í litlu samráði við þá. Við Vinstri græn lögðust alfarið á móti þeim samningum og töldum að allt of langt væri gengið í að aflétta tollum af innfluttum landbúnaðarvörum með þær væntingar að íslenskir framleiðendur gætu komist með mikið magn af landbúnaðarvörum inn á evrópskan markað, sem ekki hefur gengið eftir.

Alþingi hefur samþykkt aðgerðaáætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna. Í þá áætlun fór mikil vinna af hálfu atvinnuveganefndar. Ein af aðgerðunum var að fara yfir þróun tollverndar. Það er mikilvægt að kanna hvernig tollverndin hefur rýrnað á undanförnum árum og hvaða áhrif það hefur á landbúnaðinn, búsetuna, störfin og fæðuöryggið. Bændur geta ekki keppt við innflutning ef verið er að svindla á þeim. Leikreglurnar verða að gilda og fara verður eftir þeim. Öflugur íslenskur landbúnaður hefur aldrei verið mikilvægari en nú þegar allar þjóðir leggja mikla áherslu á matvælaöryggi og heilsusamlegt fæði sem kemur úr sjálfbæru umhverfi, eins og við búum við hér og er framleitt í nærumhverfinu. Það skiptir miklu máli fyrir neytendur og er hagur neytenda, í stað þess að flytja matvæli um langan veg með tilheyrandi loftslagsmengun. Það verður að bregðast skjótt við og fá á hreint hvort verið sé að fara á svig við gerða tollasamninga.

Við viljum standa vörð um íslenskan landbúnað með þeim fjölda afleiddu starfa sem eru úti um allt land. Átak er nú í gangi um að velja íslenska vöru og á þessum erfiðu tímum er aldrei brýnna að verja þau störf sem fylgt hafa íslenskum landbúnaði í gegnum tíðina og þeim er alltaf að fjölga. Við eigum að sameinast um að standa vörð um íslenskan landbúnað og láta ekki svona svindl viðgangast sem virðist vera í gangi.