151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

eftirlit með innflutningi á búvörum.

[11:43]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég hef verið að hlusta á ræður og leita að einhverjum til að vera ósammála þar sem við erum jú á Alþingi til að eiga skoðanaskipti. Það virðist ekki vera mikill ágreiningur um að fylgja eigi lögum og að eftirlit eigi að vera með þeim. Kannski er ágreiningurinn helst um það hversu vel yfirvöld standa sig í því eftirliti. Þá kemur fram áhugaverður punktur. Yfirvöld segja auðvitað að þau séu að gera hitt og þetta. Sumir andstæðingar segja að þau séu ekki að gera nóg. Gott og vel. Eftir stendur að kerfið sem við búum við krefst mikils eftirlits.

Ég varð hugsi eftir ræðu hv. 8. þm. Suðurk., Karls Gauta Hjaltasonar, sem taldi að treysta þyrfti landamærin og kallaði þau greinilega galopin. Ég er ekki alveg sammála þeirri greiningu. Ég myndi segja að því opnari sem við getum haft landamærin án vandræða því betra, vegna þess að frelsið er gott. Hvers vegna höfum við þau ekki galopin? Vegna þess að það kemur niður á getu okkar til þess t.d. að innheimta tolla. Þetta þýðir að frelsisskerðingin sem við búum við, viðskiptafrelsisskerðing og í öðrum tilfellum og í öðrum málaflokkum ferðafrelsskerðing, byggir oft á því að við erum að reyna að verja eitthvert kerfi sem við höfum sett upp. Þegar kerfin eru þess eðlis að þau krefjast stanslauss eftirlits yfirvalda eigum við að endurreisa þau kerfi, jafnvel ekki nema fyrir þær sakir einar og sér.

En við búum við það sem við búum við. Hér er þetta tollakerfi til staðar og það hefur óneitanlega aðra ókosti líka, til að mynda það að skekkja markaðinn. Ef neytendur vilja t.d. gefa kjöt upp á bátinn eða mjólkurvörur eða eitthvað, breyta hegðun sinni einhvern veginn til að breyta heiminum eins og er vonandi að verða vinsælt, hafa slíkar aðgerðir hins almenna borgara mjög lítil áhrif þegar markaðsskekking er til staðar. En það er rétt sem sagt var áðan, svindlararnir öðlast ólögmætt samkeppnisforskot og ég velti fyrir mér (Forseti hringir.) hvort, ef við erum öll sammála um að gera þurfi betur fyrir eftirlitið í þessu, (Forseti hringir.) við getum ekki líka verið sammála því að við ættum að hugsa um aðrar leiðir sömuleiðis.