151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

framsal sakamanna og önnur aðstoð í sakamálum.

223. mál
[11:58]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til breytinga á lögum um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, nr. 13/1984. Tilefni frumvarpsins eru þarfar breytingar á ákvæðum laganna til samræmis við nútímasakamálaréttarfar og skipan ákæruvalds og til að hraða málsmeðferð réttarbeiðna með því að einfalda ferli og gera þau skilvirkari og styrkja alþjóðlegar skuldbindingar á vettvangi gagnkvæmrar aðstoðar í sakamálum.

Ákvæði laganna um framsal sakamanna ganga skemur en lög um meðferð sakamála, að því leyti að í 2. málslið 2. mgr. 15. gr. er aðeins heimilt að úrskurða mann í gæsluvarðhald að hámarki í þrjár vikur í senn, gerist þess þörf, og því þarf að uppfæra ákvæðið til samræmis við sambærileg ákvæði laga um meðferð sakamála. Er þetta í samræmi við 2. gr. laga um meðferð sakamála og ákvæði laga um handtöku og afhendingu manna til og frá Íslandi vegna refsiverðra verknaða, á grundvelli handtökuskipunar, nr. 51/2016, sem gilda um afhendingu á manni milli Íslands og aðildarríkja Evrópusambandsins og milli Íslands og annarra norrænna ríkja, evrópska handtökuskipanin eins og hún er kölluð.

Þá er lagt til að ákvæði 2. mgr. 18. gr. laganna verði breytt á þann hátt að úrskurður um þvingunaraðgerðir yfir þeim sem óskast framseldur skuli ekki gilda lengur en í 30 daga eftir að ákvörðun um framsal hefur verið endanlega staðfest með dómi, en ekki eftir að ráðuneytið tekur ákvörðun líkt og gildandi lög kveða á um. Reynslan hefur sýnt að meðferð við framkvæmd framsals er lengri en 30 dagar bæði vegna réttar þess sem framselja á til að bera ákvörðun ráðuneytisins undir dómstóla og einnig þess að álagið á réttarkerfinu nú, árið 2020, er töluvert meira en það var árið 1984 þegar lögin tóku gildi.

Ákvæði laganna um réttarbeiðnir og feril þeirra samræmist ekki að öllu leyti nútímaskipan ákæruvalds. Gildandi lög gera ráð fyrir því að ráðherra taki lokaákvörðun um hvort orðið skuli við beiðni um réttaraðstoð frá erlendu ríki. Samkvæmt gildandi lögum hefur ráðherra því afskipti af rannsóknum einstakra sakamála að utan. Lög um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum tóku gildi árið 1984, fyrir aðskilnað dóms- og ákæruvalds, með lögum um meðferð opinberra mála árið 1991. Því er bagalegt að lögin kveði enn á um réttarfar liðinnar aldar og breytinga því þörf. Vegna þessa hafði í framkvæmd verið vikið frá því ferli sem lögin kveða á um, á þann veg að ráðherra tók ekki lokaákvörðun um hvort réttarbeiðni erlendis frá yrði framkvæmd, heldur ríkissaksóknari. Hafði þessi ferill verið látinn átölulaus af dómstólum um langt skeið eða þar til í mars sl. En tilefni frumvarpsins er jafnframt tveir úrskurðir Landsréttar frá 26. mars sl. í málum nr. 158 og 159/2020. Málavextir eru þeir að ákæruvaldið gerði tvær kröfur fyrir héraðsdómi á grundvelli réttarbeiðna um að dómurinn úrskurðaði um afnám bankaleyndar í þágu rannsóknar máls í Austurríki. Héraðsdómur vék frá áralangri hefð og hafnaði kröfunum með þeim rökum að meðferðir þeirra hafi ekki verið í samræmi við lög, þar sem ekki lá fyrir ákvörðun dómsmálaráðherra um að verða skyldi við beiðni erlendra stjórnvalda. Landsréttur staðfesti úrskurði héraðsdóms. Þetta fráhvarf frá áralangri hefð hefur haft þau áhrif að meðferð réttarbeiðna hefur tafist sem fer gegn grundvallarreglu réttarfars um málshraða, sem tryggð er í 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Til að gera feril réttarbeiðna skilvirkari og þar með auka málshraða er lagt til að stofnanir innan réttarkerfis geti sent réttarbeiðnir sín á milli, án aðkomu dómsmálaráðherra. Er þessi breyting jafnframt liður í fullgildingu á 2. viðbótarbókun við Evrópuráðssamninginn um gagnkvæma réttaraðstoð frá 20. apríl 1959, en í 4. gr. bókunarinnar er heimilað að réttarbeiðnir séu framsendar beint á milli viðeigandi stjórnvalda réttarkerfis án aðkomu dómsmálaráðuneyta. Fela breytingar á lögunum því í sér styrkingu alþjóðlegra skuldbindinga.

Þá er lagt til að bætt verði í lögin ákvæði þess efnis að réttarbeiðni skuli m.a. hafnað ef ljóst er að ekki sé hægt að verða við henni, svo sem ef brot er smávægilegt eða rannsóknin muni hafa í för með sér óeðlilega mikla fyrirhöfn og kostnað. Er þessi breyting í samræmi við 4. mgr. 52. gr. laga um meðferð sakamála og er markmiðið að koma í veg fyrir að minni háttar mál tefji afgreiðslu veigameiri mála sem varða meiri hagsmuni.

Þá gerir 3. málsliður 3. mgr. 22. gr. gildandi laga ráð fyrir því að aðeins sé heimilt að verða við beiðni að sannað sé að liggi fyrir ákvörðun um þvingunaraðgerðir sem eru í samræmi við löggjöf viðkomandi ríkis. Þetta skýlausa skilyrði laganna er ómögulegt að uppfylla í flestum tilfellum og því lagt til að fella það brott úr lögunum. Sem dæmi gera lögin ráð fyrir því að dómstóll í erlendu ríki úrskurði um að fyrirtæki eða stofnun á Íslandi sé skylt að afhenda íslenskum stjórnvöldum gögn eða upplýsingar í þágu rannsóknar sakamáls. Slíkur úrskurður hefur ekki lagalegt gildi hér á landi og því ómögulegt að krefjast þess af erlendum stjórnvöldum að slíkur úrskurður eða ákvörðun fylgi beiðni um réttaraðstoð.

Við undirbúning frumvarps þessa var meðal annars haft samráð við ríkissaksóknara. Lagt er til að frumvarpið öðlist þegar gildi.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins og legg til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.