151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

39. mál
[13:53]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Hér er kominn gamall kunningi. Við hv. 1. flutningsmaður höfum átt samtöl um þessi mál áður sem ég ætla ekkert að endurtaka. Ég verð hins vegar að játa að ég varð pínulítið hissa þegar ég sá þetta mál lagt fram aftur og mælt fyrir því hér. Það var lagt fram í fyrra, 1. nóvember. Það var gert áður en ríkið og Reykjavíkurborg undirrituðu samning um flugvallarmál, sem var 19. nóvember. Ég sýndi því þess vegna skilning en það var pínulítið skrýtið að það hefði ekki slæðst inn í umræðuna sem fór ekki fram fyrr en í janúar eða febrúar á þessu ári. Ég er enn meira hissa á að það slæðist ekki meira inn í tillöguna sjálfa eða ræðu hv. þingmanns. Hann er reyndar búinn að boða aðra ræðu.

Hv. þingmaður er hér með tillögu til þingsályktunar um að eftirfarandi spurning verði borin undir þjóðina, með leyfi forseta:

„Vilt þú að flugvöllur og miðstöð innanlands-, kennslu- og sjúkraflugs verði áfram í Vatnsmýrinni í Reykjavík uns annar jafngóður eða betri kostur er tilbúinn til notkunar? Möguleikar: Já eða nei.“

Í umræddu samkomulagi sem ríkið og Reykjavíkurborg hafa skrifað undir segir, með leyfi forseta:

„Aðilar eru sammála um að tryggt verði rekstraröryggi á Reykjavíkurflugvelli á meðan undirbúningi og gerð nýs flugvallar stendur, þar með talið eðlilegt viðhald og endurnýjun mannvirkja í samræmi við ákvæði gildandi samgönguáætlunar Alþingis. Miðað verði við að Reykjavíkurflugvöllur geti áfram þjónað innanlandsflugi á fullnægjandi hátt þar til að nýr flugvöllur er tilbúinn til notkunar.“

Sem er nákvæmlega það sama og hv. þingmaður vill spyrja þjóðina um. Raunar heyrist mér á máli hv. þingmanns að hann vilji hafa flugvöllinn, held ég um ókomna tíð, í Vatnsmýrinni. En hver er munurinn á spurningunni sem hv. þingmaður vill leggja fyrir þjóðina og setningunni úr samkomulaginu? Og af hverju talar hann ekki um samkomulagið í tillögu sinni?